Fréttablaðið leit inn í nýtt athvarf fyrir úkraínskt flóttafólk sem var opnað í vikunni á Aflagranda 40. Að framtakinu standa samtökin Flóttafólk, sem ráku áður mötuneyti í Guðrúnartúni 8, og Reykjavíkurborg sem skaffar húsnæðið. Sveinn Rúnar Sigurðsson læknir er einn skipuleggjenda ásamt Valgeiri Magnússyni, og segir hann starfsemina vera mjög umfangsmikla.
„Þetta starf rammar inn vinnu um 300 sjálfboðaliða sem hefur bara í einu og öllu verið sú fótfesta sem þessi risavaxni hópur, 1.100 manns, hefur nýtt sér til þess að ná hér landi frá fyrsta degi.“
Ýmisleg þjónusta er í boði fyrir flóttafólkið á Aflagranda, allt frá afþreyingu upp í sálgæslu og læknisþjónustu á móðurmáli þess.
„Við munum halda þessu úti eins lengi og þörf er á. Við verðum bara að hafa dug til og getu til þess að standast þessa óvissu, ekki bara við, heldur landsmenn allir, því við höfum aldrei staðið frammi fyrir viðlíka vanda,“ segir Sveinn og bætir við að þótt álagið sé mikið þá sé hópurinn þannig úr garði gerður að hann næri sjálfboðaliðana hvern einasta dag.
Hér á eftir má lesa sögur þriggja úkraínskra flóttamanna sem komu hingað til lands eftir að Rússar réðust inn í heimaland þeirra 24. febrúar.

Alexandr Khreupeak, 37 ára frá Tsjerkasy, athafnamaður
Hvað gerðirðu áður en þú komst til Íslands?
„Ég flutti fyrst frá Úkraínu þegar ég var 19 ára gamall. Ég fór til Kína og lærði bitakeðjutækni við háskólann í Shenzhen. Ég bjó þar í um tíu ár og flutti svo til Spánar þar sem ég bjó í um sex ár. Síðan flutti ég aftur til Úkraínu og stofnaði fyrirtæki sem flutti inn rafbíla.“
Af hverju ákvaðstu að koma til Íslands?
„Í fyrsta lagi þá talar fólk ensku hér, þannig að ef ég myndi fara eitthvert annað, eins og til Frakklands eða Þýskalands, þá myndi ég þurfa að byrja alveg frá grunni að læra tungumálið. Ég vissi líka að á Íslandi eru mörg atvinnutækifæri, auðvelt að fá vinnu og koma sér fyrir, auk þess sem það er öruggur staður. Maður veit aldrei hvað verður næsta skrefið hjá herra Pútín, kannski mun hann senda kjarnorkuvopn eða eitthvað þvíumlíkt.“
Hvernig hefur stríðið haft áhrif á þig?
„Tja, ég missti fyrirtækið mitt. Ég vann við það að flytja rafbíla frá Kína til Úkraínu. Gaurinn sem var milliliður á milli mín og söluaðilans í Kína tók allt. Þannig að ég tapaði miklum peningum og var nánast allslaus. 37 ára gamall þurfti ég að hefja nýtt líf.“
Eru fjölskylda þín og vinir enn í Úkraínu?
„Mamma mín er enn í Úkraínu, hún er tæplega sextug. Það er nú mikið atvinnuleysi og margir eru ekki með neina vinnu. Það er mjög erfitt að verða sér úti um mat í búðum, fólk getur kannski keypt kíló af sykri, kíló af salti og kíló af hveiti, ekki mikið meira. Þannig að ástandið er mjög erfitt.“
Þú vinnur nú sem ísgerðarmaður hjá Valdísi, er það ekki svolítið ólíkt því sem þú gerðir áður?
„Gjörsamlega ólíkt en mér finnst gaman að gera mismunandi hluti. Mér finnst ekkert svo erfitt að fá svona nýtt tækifæri, nýtt starf og nýtt líf. Ég bý til ís og fæ að gleðja börn og ég veit að Íslendingum finnst ís mjög góður.“
Ég vann við það að flytja rafbíla frá Kína til Úkraínu. Gaurinn sem var milliliður á milli mín og söluaðilans í Kína tók allt. Þannig að ég tapaði miklum peningum og var nánast allslaus. 37 ára gamall þurfti ég að hefja nýtt líf.

Kateryna Kostyuchenko, 37 ára frá Dnípró, framkvæmdastjóri
Hvað gerðirðu áður en þú komst til Íslands?
„Ég vann í tíu ár sem framkvæmdastjóri innflutnings og útflutnings í fæðubirgðakeðju frá Kína, Bandaríkjunum og Evrópu til Úkraínu. Vörurnar sem um var að ræða eru meðal annars efnaafurðir og áburður til nota í landbúnaði.“
Hvernig komstu til Íslands?
„24. febrúar yfirgáfum við borgina og eyddum nokkrum dögum í skúr úti í sveit. Ég og systir mín flúðum með tvö börn, tvo hunda og tvo ketti. Við keyrðum í gegnum Rúmeníu og Búlgaríu. Systir mín endaði í Portúgal og tveimur vikum síðar fór ég til Íslands.“
Var vel tekið á móti þér hér?
„Já, ég upplifði mig meira en velkomna! Stuðningur og hjálp alls staðar að, frá hverri einustu manneskju í raun, á Facebook-grúppum og úti á götu. Allt fólkið er svo hlýlegt og núna vorum ég og sonur minn að flytja inn í íbúð á Seltjarnarnesi.“
Ertu komin með vinnu?
„Nei, ekki enn. Sonur minn er sex ára gamall og í dag var fyrsti dagurinn hans á íslenskum leikskóla. Ég ákvað að byrja á því að koma honum á leikskóla og svo fer hann á sumarnámskeið og þá get ég byrjað að vinna af því ég er ekki með neina barnapíu.“
Myndirðu vilja búa á Íslandi til frambúðar?
„Já, mig langar að vera hér. Mér finnst veðrið hérna og hitastigið henta mér vel. Það kemur reyndar betur í ljós í vetur en núna er það fínt.“
Er einhver úr fjölskyldunni þinni ennþá í Úkraínu?
„Sá eini sem er eftir í Úkraínu er maðurinn minn sem vinnur við lestarsamgöngur. Systir mín og foreldrar mínir eru öll farin. Foreldrar mínir fluttu frá Búlgaríu til Skotlands. Í raun er lítið eftir fyrir mig í Úkraínu.“
...ég upplifði mig meira en velkomna! Stuðningur og hjálp alls staðar að, frá hverri einustu manneskju í raun, á Facebook-grúppum og úti á götu. Allt fólkið er svo hlýlegt og núna vorum ég og sonur minn að flytja inn í íbúð á Seltjarnarnesi.

Roman Drahulov, 22 ára frá Kherson, vélstjóri
Hvað gerðirðu áður en þú komst til Íslands?
„Ég stundaði nám í skipaverkfræði og starfaði sem vélstjóri. 23. febrúar átti ég að fara í siglingu frá Odesa til Alexandríu í Egyptalandi, en vegna þess að stríði var lýst yfir í Úkraínu var karlmönnum ekki leyft að fara úr landi þannig að samningnum mínum var frestað. En eitt leiddi af öðru og ég endaði á að yfirgefa Úkraínu.“
Þú vildir ekki verða eftir og berjast í stríðinu?
„Ég er ekki atvinnuhermaður. Ég átti að gegna tímabundinni herþjónustu, hver og einn karlmaður á aldrinum 18 til 27 ára þarf að sinna herskyldu, en það eru ýmsar undantekningar. Ég er enn í námi þannig að ég gat frestað minni herskyldu.“
Hvaða starf fékkstu á Íslandi?
„Sama og ég vann við áður. Ég vinn hjá Faxaflóahöfnum. Mér líkar það mjög vel, starfsandinn er svipaður og mér líkar vel við samstarfsfólk mitt.“
Myndirðu vilja búa á Íslandi til frambúðar?
„Já, ég var búinn að stefna á að koma hingað í fjögur ár. Menningin og tungumálið eru stór partur af því af hverju mig langar að búa hér.“
Heldurðu að Úkraína muni vinna stríðið?
„Það er erfitt að segja hvað framtíðin ber í skauti sér. Eitt get ég sagt, það skiptir ekki máli hvernig stríðið mun enda, landið okkar verður í slæmu standi í minnst fimm ár. Margt fólk mun flýja um heim allan, bara til þess að deyja ekki úr hungri. Við eigum fallega jörð, við eigum fallega staði og við eigum fallegar náttúruauðlindir. En í gegnum tíðina höfum við verið öfundarefni annarra landa. Allir vilja bút af Úkraínu. Ég veit ekki hvernig stríðið mun enda en það eru erfiðir tímar fram undan.“
Ég veit ekki hvernig stríðið mun enda en það eru erfiðir tímar fram undan.
