Xi Jinping og stjórn hans í Kína gera nú alvarlega atlögu að matar­sóun í landinu. Í ræðu á þriðjudag lýsti hann þessari sóun sem truflandi og hneyksli, sérstaklega í ljósi þess að heimsfaraldur gengur yfir. En flóð hafa verið í landinu og matvælaverð fer hratt hækkandi.

Máli sínu til stuðnings vitnaði hann í ljóð sem segir að mikið strit sé á bak við hvert grjón á disknum. „Við ættum að vera á miklu varðbergi gagnvart fæðuöryggi okkar. Áhrif COVID-19 faraldursins hafa vakið okkur til umhugsunar,“ sagði Jinping.

Í borginni Wuhan, þaðan sem veirunnar varð fyrst vart, hefur þegar verið tekin upp svokölluð N-1 regla. En samkvæmt henni mega hópar aðeins panta einum rétti færra en tala einstaklinganna. Það er ef sex manns koma á veitingastað mega þeir einungis panta fimm rétti. En í Kína er það til siðs að panta umfram það sem maður þarf.

Þá hafa einnig verið settar reglur um að veitingastaðir verði að bjóða upp á minni skammtastærðir og box til að gestir geti tekið afganga með sér heim. Tvær aðrar borgir hafa einnig tekið upp regluna, Xianning og Xianyang, og fleiri munu vafalaust fylgja í kjölfarið.