Bæjar­ráð Fjarða­byggðar hefur ítrekað fundað með stjórn­völdum vegna tafa á upp­byggingu á snjó­flóða­vörnum en undanfarin ár hefur verið talað fyrir daufum eyrum. Þetta kemur fram í bókun bæjar­ráðs sem birtist á vef sveitar­fé­lagsins í dag. Ey­dís Ás­björns­dóttir, for­maður bæjar­ráðs, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að bæjarstjórn upplifi sinnuleysi og pirring þar sem framkvæmdum hefur ekki verið fylgt eftir samkvæmt áætlunum.

Til­efnið eins og gefur að skilja snjó­flóðin sem urðu á Vest­fjörðum í síðustu viku. Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála­ráð­herra, stað­festi á Al­þingi í dag að vinna muni fara fram með um­hverfis­ráð­herra þar sem á­ætlanir um ofan­flóða­sjóð verða upp­færðar, svo hægt sé að fá auknar fjár­heimildir sem til þurfi.

Eyðilegging á Neskaupstað eftir snjóflóð 1974. Þar létust tólf manns.
Fréttablaðið

Eyrnar­merkt gjöld eigi að rata til síns heima

Sagði hann ljóst að snjó­flóða­varnir hefðu sannað gildi sitt. Hins vegar væri ljóst að menn þyrftu að gera betur. „Skatt­ar og gjöld í á­kveðnum til­­­gangi eiga að rata til síns heima.“ Það að ofan­flóða­sjóður hafi í gegnum árin verið nýttur sem hag­stjórnar­tæki hefur áður verið gagn­rýnt. Upp­bygging snjó­flóða­varna átti í fyrstu að klárast 2010, svo 2020 en miðað við fjár­magn nú munu fram­kvæmdir taka fimm­tíu ár í við­bót.

„Bæjar­yfir­völd í Fjarða­byggð hafa bent á og barist fyrir því um langt ára­bil að fram­kvæmdum við ofan­flóða­varnir sé fram­haldið og farið eftir lögum þar um. Nú­gildandi lög kveða á um að vörnum sé lokið á þessu ári en langt í frá er að því verði lokið.

Það er al­ger­lega ó­líðandi að fjár­magn það sem aflað hefur verið í Ofan­flóð­sjóð frá upp­hafi hans hafi ekki verið nýtt til upp­byggingar ofan­flóða­mann­virkja og við verður ekki unað lengur. Því á­réttar bæjar­ráð Fjarða­byggðar enn einu sinni við stjórn­völd að nú verður að setja kraft í upp­byggingu mann­virkja og á­ætlun um slíkt þarf að koma fram strax,“ segir í bókun bæjar­ráðs Fjarða­byggðar.

Talað fyrir daufum eyrum

„Við höfum marg­í­trekað og þrýst á ríkið og fengið á­heyrn, einnig sent inn erindi, um að það yrði haldið á­fram með þessar fram­kvæmdir og sömu­leiðis bent á mikil­vægi þess að það sé haldið á­fram, því það hefur verið að koma rof í fram­kvæmdir,“ segir Ey­dís.

„Því miður er reynsla okkur sú að við höfum talað fyrir daufum eyrum síðustu misseri. Við höfum átt fín sam­skipti með fólkinu úr stjórn ofan­flóða­sjóðs en auð­vitað vekur þetta furðu, því fjár­magnið á að vera til þar sem í­búar borga skatta af sínum fast­eignum, sem eiga að renna beint í ofan­flóða­sjóð. Ráða­menn þjóðarinnar verða að svara því hvar þessir peningar eru.“

Ey­dís segir að at­burðirnir á Vest­fjörðum séu á­minning um mikil­vægi þessa. Ljóst sé að það sé mikið öryggis­mál að klára fram­kvæmdir svo unnt sé að verja sam­fé­lögin og manns­líf.