Mat­væla­stofnun (MAST) ræður fólki ein­dregið frá því að taka hunda með á gos­stöðvarnar í Geldinga­dölum. Auk þess sem mikil mengun er á svæðinu af efnum sem geta haft skað­leg á­hrif á hunda er talin hætta á ýmis konar slysum.

Í til­kynningu frá MAST segir að á gos­stöðvunum sé mikið á­reiti, bæði hljóð og lykt, flug­vélar, þyrlur og drónar og mikið af fólki, þannig að margir hundar geta orðið stressaðir.

Rann­sóknir Jarð­vísinda­stofnunar og Veður­stofunnar á regn­vatni á svæðinu hafa sýnt mikla efna­mengun. Meðal annars hefur flúr­sýra greinst langt yfir neyslu­vatns­við­miðum, allt að 60 falt magn. Einnig mælist mikil salt­sýra og sýru­stig er mjög lágt. Ef hundar drekka vatn á svæðinu, éta snjó, eða sleikja þófa getur það haft nei­kvæð heilsu­fars­leg á­hrif. Salt­sýra og lágt sýru­stig á yfir­borði getur ert þófa og sært. Hundur með sára þófa sleikir þá gjarnan og efnin geta borist í hundinn.

Ef fólk velur, þrátt fyrir þessar að­varanir, að taka hunda er það beðið að sér­stak­lega að hafa í huga fjögur afar mikil­væg at­riði fyrir öryggi hundsins og annarra:

Ekki láta hundana drekka úr vatns­pollum, né éta snjó á svæðinu! Vatnið getur verið mengað af alls kyns skað­legum efnum. Hafið með drykkjar­vatn og skál og bjóðið hundinum eftir þörfum að drekka úr skálinni.

Reynið að koma í veg fyrir að hundarnir sleiki feld eða þófa fyrr en skolað hefur verið af þeim með vatni eftir að komið er af gossvæðinu.

Hafið hundana á­vallt í taumi! Lausir hundar geta hlaupið í lægðir þar sem er gas og jafn­vel á hraunið. Lausir hundar geta líka valdið öðru fólki hættu og ó­þægindum á leiðinni með því að koma því úr jafn­vægi eða velta á það grjóti.

Ekki fara mjög ná­lægt hrauninu með hund! Hundarnir eru tölu­vert lægri en við og geta fengið í sig mikið meira gas. Haldið ykkur ofar­lega í brekkunni með vindinn í bakið.