Söngvarinn R. Kelly, eða Robert Kelly eins og hann heitir, hefur verið handtekinn og verður ekki sleppt úr haldi fyrr en hann greiðir þær háu fjárupphæðir sem hann skuldar í meðlag. Söngvarinn var í síðasta mánuði ákærður fyrir tíu kynferðisbrot, en brotin ná allt til ársins 1998. AP-fréttastofan greinir frá.

Sjá einnig: R. Kelly: „Ég gerði þetta ekki!“

Kelly á þrjú börn með fyrrum dansaranum Andreu Lee, en þau sóttu um skilnað árið 2006. Kelly er sagður skulda 161 þúsund dali í meðlag, en það eru rúmar nítján milljónir króna. Verður honum ekki sleppt úr haldi fyrr en hann greiðir meðlagið, en útgefandi hans Darryl Johnson segir Kelly hafa bolmagn til að greiða að hámarki 60 þúsund dali. Hann eigi erfitt með að greiða allar nítján milljónirnar þar sem hann hefur ekki verið fær um að vinna. 

Sjá einnig: R. Kel­ly segist sak­laus af öllum á­kærum

Sem fyrr segir var söngvarinn í síðasta mánuði ákærður fyrir tíu kynferðisbrot. Hann neitar sök, en viðtal við söngvarann sem birtist fyrr í dag hefur farið um víðan völl. Þar neitar hann tárvotur öllum sökum.

„Hættið þessu. Hættið að leika ykkur svona með mig. Hættið að leika. Ég gerði þetta ekki! Þetta er ekki ég. Ég er að berjast fyrir helvítis lífi mínu,“ sagði söngvarinn meðal annars.