R Kelly hefur verið handtekinn í Chicago í nótt vegna gruns um mansal og að hafa barnaklám undir höndum og fyrir að hindra framgang réttvísinnar. Steve Greenberg lögfræðingur söngvarans staðfesti þetta í samtali við Chicago Sun Times.

Söngvarinn hefur ávalt þvertekið fyrir það að hafa brotið á stúlkum undir aldri og að hafa haldið konum nauðugum. Ótalmörg mál gegn söngvaranum hafa farið fyrir dóm en hann er sakaður um ýmis kynferðisbrot, til að mynda gegn stúlkum undir lögaldri.

Hann var ákærður fyrir barnaníð árið 2002 og var sýknaður af ákærunum árið 2008. Síðastliðinn febrúar var Kelly ákærður fyrir tíu stórfelld kynferðisbrot og í maí voru birtar 11 ákærur til viðbótar en hann hefur margoft verið sakaður um kynferðisbrot á síðastliðnum 20 árum.

Síðastliðinn mars fór R Kelly í viðtal hjá sjónvarpskonunni Gayle King á CBS og tjáði sig í fyrsta sinn opinberlega um ásakanirnar á hendur sér. Í viðtalinu tók hann bræðiskast.

Upphlaup R Kelly í þætti Gayle King á CBS.

Í janúar birti sjónvarpsstöðin Lifetime sex þátta- heimildarþáttasería, Surviving R. Kelly, þar sem fjöldi kvenna steig fram og sagði frá ofbeldi og misnotkun Kelly. Þáttaröðin blés nýju lífi í langlífar ásakanir á hendur söngvaranum og var söngvarinn í kjölfarið fjarlægður af tilbúnum lagalistum Spotify, auk þess sem Sony sagði slitið við hann.