Söngvarinn R. Kelly, eða Robert Kelly eins og hann heitir, er í einkaviðtalið við sjónvarpsstöðina CBS þar sem hann tekur fyrir að hafa beitt konur nokkurs konar ofbeldi eða haldið þeim nauðugum heima hjá sér. Kelly var í síðasta mánuði ákærður fyrir tíu kynferðisbrot, gegn fjórum konum, þar af eru fjórar undir aldri. Brotin ná allt aftur til ársins 1998. Hann neitar sök. 

Sjá einnig: R. Kel­ly segist sak­laus af öllum á­kærum

Sjónvarpskonan Gayle King tók viðtalið og ræddi einnig við tvær ungar konur sem nú búa með söngvaranum, þær Azriel Clary og Joycelyn Savage. Viðtalið við R. Kelly verður birt síðar í dag í heild sinni og viðtalið við konurnar næsta föstudag, þann 8. mars. Foreldra beggja stúlkna hafa sakað söngvarann um að halda þeim gegn vilja þeirra. Savage segir í viðtalinu að hún búi með söngvaranum af fúsum og frjálsum vilja.

King spurði Kelly í viðtalinu um þráláta orðróma um að hann hafi ítrekað brotið á stúlkum undir aldri og beitt þær kynferðislegu ofbeldi.

„Siturðu hér og heldur því fram að þú hafi aldrei verið með stúlkum sem eru undir aldri. Geturðu í alvöru sagt það?“

Kelly svaraði því og sagði að um væri að ræða tvö mál, sem hann gæti ekki rætt í viðtalinu, vegna þess að þau séu fyrir dómi eins og er. Að því loknu sagði hann að fólk færi alltaf aftur í fortíð hans og væru að reyna að bæta því ofan á það sem í gangi er í dag. Hann sagði að fortíðin ætti ekki við í þessum málum.

Hann sagði að hann hafi verið sýknaður af þeim málum sem hann var ákærður fyrir árið 2002 og það væri ekki sanngjarnt að draga þau því upp núna. Hann var árið 2002 ákærður fyrir barnaníð og var sýknaður af ákærunum árið 2008. 

„Þegar þú vinnur mál þitt, þá vinnurðu mál þitt,“ sagði Kelly.

King sagði þá að ekki væri endilega verið að ræða það mál sem hann var ákærður fyrir, heldur þau mál þar sem konur hafa stigið fram, síðan þá, og sakað hann um að hafa stundað kynlíf með sér þegar þær voru undir aldri. Hann hafi beitt þær andlegu og líkamlegu ofbeldi í „svörtu herbergi“ þar sem ólýsanlegir hlutir hafi átt sér stað.

King vísar þar til ásakana konu sem átti í sambandi við Kelly og greindi frá ofbeldi hans gegn sér í heimildarþáttaröðinni Surviving R. Kelly sem frumsýnd var í janúar. Þar steig fjöldi kvenna fram og sakaði hann um að hafa beitt sig ofbeldi og haldið sér gegn vilja sínum.

„Það er ekki satt, sagði Kelly og bætti við að sama hvort ætti við um nýja eða gamla orðróma, þá væru þeir ekki sannir.


Þarf ekki að halda konum nauðugum

Þegar King spurði hann beint út hvort hann hafi aldrei haldið neinni þeirri gegn vilja þeirra sagði hann að hann þyrfti þess ekki.

„Ég þarf þess ekki. Hvers vegna myndi ég gera það? Hversu heimskulegt væri það, fyrir R. Kelly, eftir allt sem ég hef gengið í gegnum í fortíð minni, að halda einhverjum hvað þá 4, 5,6, 50 eins og þú segir – hversu heimskulegt væri það af mér að gera það?“ sagði R. Kelly.

Að því loknu horfði hann beint í myndavélina og ávarpað fólk sem telur slíkar ásakanir sannar. Hann sagði að fólk ætti að nota heilbrigða skynsemi sína og ef það myndi gera það myndi það sjá hversu heimskulegt það væri af honum.

„Það er heimskulegt. Notiði heilbrigða skynsemi. Gleymið bloggunum, gleymið því hvernig ykkur líður gagnvart mér. Hatið mig ef þið viljið, elski mig ef þið viljið. En notið bara ykkar heilbrigðu skynsemi. Hversu heimskulegt væri það fyrir mig, með mína brjáluðu fortíð og allt sem ég hef gengið í gegnum – ó, núna held ég að ég þurfi að vera skrímsli og halda stúlkum gegn vilja þeirra, hlekkja þær niður í kjallaranum mínum og leyfa þeim ekki að borða, hleypa þeim ekki út, nema þær vilji fara að ná sér í skó neðar í götunni frá frænda sínum!,“ sagði Kelly og bætti svo við:

„Hættið þessu. Hættið að leika ykkur svona með mig. Hættið að leika. Ég gerði þetta ekki! Þetta er ekki ég. Ég er að berjast fyrir helvítis lífi mínu“.

Viðtalið verður í heild sinni birt á síðu CBS í dag og á morgun. Það er að sögn miðilsins tæpur einn og hálfur tími.

Nánar er hægt að lesa um viðtalið hér á vefsíðu miðilsins CBS.