Banda­ríski söngvarinn R. Kel­ly greindi dómara frá því í dag að hann ætlaði ekki að stíga í vitna­stúkuna í réttar­höldum yfir honum vegna kyn­ferðis­brota og mansals. Með því kemst hann hjá gagnyfir­heyrslu sem gæti reynst honum erfið.

„Þú vilt ekki bera vitni, ekki satt?“ spurði dómarinn Ann Connel­ly og svaraði Kel­ly á þann veg að hann vildi ekki bera vitni. Lög­menn hans höfðu áður sagt að ó­lík­legt væri að söngvarinn bæri vitni.

Máls­vörn verjanda Kel­ly hefur byggt á vitnis­burði nokkurra sem starfað hafa með Kel­ly í gegnum árin. Mark­miðið með vitnis­burði þeirra var að kasta rýrð á frá­sagnir meintra fórnar­lamba söngvarans, sem sakaður er um að hafa mis­notað konur, stúlkur og drengi á þriggja ára­tuga löngum ferli sínum.

Flest vitnanna segjast ekki hafa séð Kel­ly mis­nota neinn og eitt gekk svo langt að segja að Kel­ly hagaði sér „að hætti riddara“ í garð kærasta sinna. Annað vitni sagðist eiga feril sinn Kel­ly að þakka og að hann vildi ekki sjá hann sak­felldan.

R. Kel­ly, réttu nafni Robert Kel­ly, á­samt lög­manni sínum Ste­ve Green­berg.
Fréttablaðið/EPA

Sak­sóknarar hafa aftur á móti kallað til fjölda vitna síðan réttar­höldin hófust fyrir al­ríkis­dóms­tól í Brook­lyn í New York þann 8. ágúst. Þar á meðal eru nokkrar konur og tveir karl­menn sem segja Kel­ly hafa brotið á sér. Hann hafi notið að­stoðar starfs­fólks síns við að verða honum út um fórnar­lömb á tón­leikum, í verslunar­mið­stöðvum og veitinga­stöðum þar sem Kel­ly hélt til.

Fram hefur komið í vitnis­burði þeirra að Kel­ly hafi brotið á þeim í­trekað og beitt þau líkam­legu og and­legu of­beldi. Flest var fólkið á barns­aldri er meint brot áttu sér stað. Fyrr­verandi starfs­menn Kel­ly hafa einnig borið vitni gegn honum. Þeir hafi fengið greitt fyrir að líta fram hjá hegðun hans eða að­stoða hann við að fá sínu fram­gengt.