Lög­reglu­yfir­völd í bænum Schwelm í Þýska­landi leystu níu ára gamalt inn­brots­mál eftir að erfða­efni sem greindist á hálf­étinni pylsu sam­ræmdist erfða­efni manns sem hand­tekinn var í Frakk­landi vegna ó­tengds máls.

Inn­brotið átti sér stað í mars 2012 en lög­reglan telur að inn­brots­þjófurinn, sem er 30 ára gamall Albani, hafi fengið sér bita af pylsu í eigu fórnar­lambsins á meðan hann lét greipar sópa.

Ekki er ljóst um hvers lags pylsu er að ræða, lög­reglan sagði hana þó hafa verið af stærri gerðinni en slíkar pylsur kallast „Wurst“ í Þýska­landi.

Rann­sak­endur málsins fengu ný­lega til­kynningu um að frönsk lög­reglu­yfir­völd hefðu greint sam­svarandi sýni úr erfða­efni manns sem grunaður er um of­beldis­glæp þar í landi.

Lög­reglan í Schwelm segir þó að maðurinn sé að öllum líkindum laus allra mála og verði ekki fram­seldur til Þýska­lands þar sem brot hans sé fyrnt. Það verður því að teljast harla ó­lík­legt að hann muni þurfa að svara fyrir pylsu­þjófnaðinn á næstunni.