Vladímír Pútín, forseti Rússlands, hefur fordæmt nýyfirstaðin mótmæli þar í landi og sagt þau ólögleg.

Fjölmenn mótmæli brutust út víða í Rússlandi um helgina þar sem fólk safnaðist saman til að mótmæla handtöku stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalní. Átök brutust út milli lögreglumanna og mótmælenda og handtók rússneska lögreglan hátt í fjögur þúsund manns.

„Allir eiga rétt á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri innan ramma laganna. Allt annað vinnur ekki einungis gegn málstaðnum heldur er líka hættulegt,“ sagði Pútín.

Navalní var handtekinn fyrir meint skilorðsbrot við komu sína til Moskvu fyrr í mánuðinum. Hann hafði dvalið í Þýskalandi í fimm mánuði eftir honum var byrlað taugaeitrið Novichok. Þar hafa spjótin beinst að rússneskum yfirvöldum sem neita sök í málinu.

Navalní lýsti því yfir á samfélagsmiðlum fyrr í vikunni að hann hefði ekki í hyggju að svipta sig lífi í fangelsi. Þá sagðist hann fara varlega upp og niður stiga og að blóðþrýstingur hans væri mældur daglega svo að hann ætti ekki á hættu á að fá hjartaáfall.

Stuðningsmenn Navalnís skipuleggja nú sambærileg mótmæli sem fara fram á sunnudag.