Gervi­hnattar­mynd frá banda­ríska fyrir­tækinu Maxar sýnir hátt í 60 kíló­metra langa her­gagna­lest sem nálgast nú Kænu­garð, höfuð­borg Úkraínu, úr norðri. Þá sýna fleiri myndir fyrir­tækisins mikla liðs­söfnun í suður­hluta Hvíta-Rúss­lands, um 30 kíló­metrum norðan landa­mæra Úkraínu.

Þessi liðs­söfnun er talin vera til marks um að Rússar ætli að leggja aukinn þunga í að ná Kænu­garði á sitt vald. NBC News hefur eftir heimildar­mönnum sínum úr röðum banda­rísku leyni­þjónustunnar sínum að Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seti sé orðinn pirraður á því hversu hægt hlutirnir hafa gengið fyrir sig undan­farna daga.

NBC News hefur eftir heimildar­mönnum sínum að náið sé fylgst með hegðun Rúss­lands­for­seta. Engar vís­bendingar séu uppi um að hann sé „ó­stöðugur á geði“ en hann hafi vissu­lega sýnt aðra hegðun að undan­förnu en menn eiga að venjast.

Þá kemur fram að Banda­ríkja­menn telji sig hafa á­reiðan­legar upp­lýsingar þess efnis að Pútín sé veru­lega pirraður á gangi mála og hann hafi látið reiði sína bitna á undir­mönnum sínum í innsta hring. Þessi hegðun er sögð ó­venju­leg enda for­setinn vanur því að sýna skap­stillingu og ró­semi.

Rúss­neski herinn hefur haldið þungum á­rásum sínum á­fram í morguns­árið. Mynd­bönd hafa birst á sam­fé­lags­miðlum sem sýna þegar loft­skeyti lenti fyrir utan stjórnar­ráðs­bygginguna á Sjálf­stæðis­torginu í mið­borg Kharkiv í morgun. Rússar gerðu á­rásir á í­búða­hverfi í Kharkiv í gær eins og Frétta­blaðið greindi frá.