Gervihnattarmynd frá bandaríska fyrirtækinu Maxar sýnir hátt í 60 kílómetra langa hergagnalest sem nálgast nú Kænugarð, höfuðborg Úkraínu, úr norðri. Þá sýna fleiri myndir fyrirtækisins mikla liðssöfnun í suðurhluta Hvíta-Rússlands, um 30 kílómetrum norðan landamæra Úkraínu.
Þessi liðssöfnun er talin vera til marks um að Rússar ætli að leggja aukinn þunga í að ná Kænugarði á sitt vald. NBC News hefur eftir heimildarmönnum sínum úr röðum bandarísku leyniþjónustunnar sínum að Vladimír Pútín Rússlandsforseti sé orðinn pirraður á því hversu hægt hlutirnir hafa gengið fyrir sig undanfarna daga.
NBC News hefur eftir heimildarmönnum sínum að náið sé fylgst með hegðun Rússlandsforseta. Engar vísbendingar séu uppi um að hann sé „óstöðugur á geði“ en hann hafi vissulega sýnt aðra hegðun að undanförnu en menn eiga að venjast.
Þá kemur fram að Bandaríkjamenn telji sig hafa áreiðanlegar upplýsingar þess efnis að Pútín sé verulega pirraður á gangi mála og hann hafi látið reiði sína bitna á undirmönnum sínum í innsta hring. Þessi hegðun er sögð óvenjuleg enda forsetinn vanur því að sýna skapstillingu og rósemi.
Rússneski herinn hefur haldið þungum árásum sínum áfram í morgunsárið. Myndbönd hafa birst á samfélagsmiðlum sem sýna þegar loftskeyti lenti fyrir utan stjórnarráðsbygginguna á Sjálfstæðistorginu í miðborg Kharkiv í morgun. Rússar gerðu árásir á íbúðahverfi í Kharkiv í gær eins og Fréttablaðið greindi frá.
Missile attack on the Kharkiv regional administration. Grad shelling at residential areas. Another proof Putin is the ultimate evil. #StopRussia #StopRussianAggression #RussiaInvadedUkraine pic.twitter.com/l5nlP6liui
— Stratcom Centre UA (@StratcomCentre) March 1, 2022