Boris John­son, fyrr­verandi for­sætis­ráð­herra Bret­lands, segir að Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seti hafi hótað að drepa hann þegar John­son hvatti hann til þess að hætta við árás á Úkraínu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í við­tali við John­son sem sýnt verður í heimilda­þættinum Putin v the West sem er á dag­skrá BBC í kvöld.

John­son segir að hótunin hafi átt sér stað í sím­tali þeirra tveggja eftir að hann heim­sótti Úkraínu í fyrra og full­vissaði Volodómír Selenskí, for­seta Úkraínu, að Úkraínu­menn hefðu stuðning Breta ef til inn­rásar Rússa kæmi.

Á þessum tíma var Pútín búin að senda þúsundir her­manna að landa­mærum Úkraínu en nokkrum vikum síðar réðst herinn inn í landið.

John­son er sagður hafa varað Pútín við því að ef Rússar réðust inn myndi það hafa slæmar af­leiðingar í för með sér fyrir Rússa, meðal annars við­skipta­þvinganir og aukinn við­búnað NATO-ríkjanna. Þá kveðst hann hafa reynt að full­vissa Pútín um að Úkraínu­menn væru ekki á leiðinni inn í NATO.

John­son segir að á einum tíma­punkti í sam­tali þeirra hafi Pútín hrein­lega hótað honum líf­láti. „Hann sagði: „Boris, ég hef engan á­huga á að meiða þig, en með flug­skeyti tæki það bara eina mínútu.“

For­sætis­ráð­herrann fyrr­verandi segir að Pútín hafi verið ró­legur í sam­talinu og lík­lega viljað koma með krók á móti bragði þegar John­son hvatti hann til að hætta við inn­rásina. Ó­víst sé hvort al­vara hafi verið að baki hótuninni en í ljósi sögunnar sé full á­stæða til að taka öllum slíkum orðum al­var­lega.

Í heimilda­þættinum kemur fram að níu dögum eftir sam­tal þeirra John­sons og Pútíns, þann 11. febrúar, hafi Ben Wallace, varnar­mála­ráð­herra Bret­lands, flogið til Moskvu til að hitta kollega sinn, Sergei Shoigu. Á þeim fundi hafi Shoigu full­yrt að Rússar ætluðu ekki að ráðast á Úkraínu. John­son segir að bæði Bretar og Rússar hafi vitað að um lygi væri að ræða sem síðar kom á daginn.