Vla­dí­mír Pútín, for­­seti Rúss­land, og Xi Jin­ping, for­­seti Kína, munu hittast á fundi í Úsbek­istan í næstu viku. Þetta er í fyrsta sinn sem leið­­togarnir hittast síðan inn­rás Rússa í Úkraínu hófst.

Fundur leið­­toganna fer fram á Shang­haí Cooperation Organization-ráð­­stefnunni í borginni Samarkand í Úsbek­istan 15. septem­ber næst­komandi.

„Eftir minna en tíu daga munu leið­­togar okkar hittast aftur á SCO ráð­­stefnunni í Samarkand. Við vinnum nú að undir­­búningi,“ sagði Andrei Deni­sov, sendi­herra Rúss­lands í Kína.

Heim­­sóknin til Úsbek­istan verður í fyrsta sinn í meira en tvö ár sem Xi ferðast úr landi.

Ekki hægt að útiloka hernaðarbandalag

Síðasti fundur leið­­toganna tveggja átti sér stað í Peking, að­eins tveimur vikum áður en inn­rás Rússa í Úkraínu hófst. Ekki er vitað hvort Xi hafi vitað af á­­formum Pútín á þeim tíma, en leið­­togarnir skrifuðu undir sam­komu­lag um að sam­band ríkjanna myndi „engin tak­­mörk“ hafa.

Með því að leggjast ekki gegn inn­­rásinni hafa kín­versk yfir­­völd í raun veitt Rússum sam­þykki sitt, en á al­­þjóða­­sviðinu hefur Kína reynt að sýnast hlut­­laust og forðast þar af leiðandi refsi­að­­gerðir Evrópu­­sam­bandsins og Banda­­ríkjanna.

Moskva og Peking hafa í auknum mæli sam­ræmt utan­­­ríkis­­stefnu sína gegn frjáls­­lyndum lýð­ræðis­öflum í Asíu, Evrópu og víðar, með því að standa fyrir ein­ræðis­­stjórnum sem gefa lítið svig­rúm til tjáningar­­frelsis, réttinda minni­hluta­hópa eða pólitískra and­­stæðinga.

Ríkin tvö hafa á­vallt neitað að það standi til að mynda hernaðar­banda­lag, en Pútín hefur þó sagt að ekki sé hægt að úti­­­loka þann mögu­­leika. Hann benti á að Rússar hafi deilt við­­kvæmum her­­gögnum og tækni með Kína.