Vla­dí­mír Pútín Rúss­lands­for­seti þver­tekur fyrir það að Rússar hafi byrlað Alexei Naval­ny eitur en Naval­ny lá í dái og var þungt haldinn eftir að hafa komist í tæri við tauga­eitrið Novachok síðast­liðinn ágúst í Síberíu. Hann var fluttur á spítala í Ber­lín í kjöl­far eitrunarinnar og út­skrifaðist þaðan í septem­ber.

Naval­ny hefur í gegnum tíðina verið einn helsti stjórnar­and­stæðingur Pútíns en teymi Naval­ny hélt því fram að Pútín hafi fyrir­skipað að eitrað yrði fyrir honum. Sama eitur var notað gegn rúss­neska njósnaranum Sergei Skripal og dóttur hans í Eng­landi árið 2018 en rúss­nesk yfir­völd harð­neita að á­rásin gegn Naval­ny hafi komið frá þeim.

Teymi sem sérhæfði sig í notkun taugaeitra hafi fylgt Navalny

Skýrsla um málið, sem gerð var af rann­sóknar­hópnum Belling­cat og birt af CNN síðast­liðinn mánu­dag, sýnir aftur á móti að ýmis­legt bendi til að rúss­neska öryggis­sveitin FSB hafi myndað sér­stakt teymi sem sér­hæfði sig í notkun tauga­eitra og að teymið hafi verið að fylgjast með Naval­ny árum saman.

Á blaða­manna­fundi Pútíns í dag neitaði hann þó al­farið niður­stöðum skýrslunnar, sakaði Belling­cat hópinn um lygar og sagði for­svars­menn hópsins starfa í þágu er­lendra leyni­þjónustu­sam­taka. Meðal sönnunar­gagna sem hópurinn vísaði til voru stað­setningar þekktra út­sendara en Pútín gaf lítið fyrir það og sagðist vita af því að fylgst væri með út­sendurum.

Þá lagði hann til að Naval­ny væri mögu­lega að vinna með leyni­þjónustu Banda­ríkjanna og því væri nauð­syn­legt að fylgjast með honum. „En það þýðir ekki að það þurfi að byrla honum eitur, hver þarf hann? Ef [út­sendararnir] vildu, hefðu þeir lík­lega lokið við verkið,“ sagði Pútín og vísaði þar til þess að Naval­ny hefði ekki lifað af ef út­sendararnir hefðu byrlað honum.