Vestrænir leiðtogar voru að mestu ósnortnir yfir tilkynningu Vladímírs Pútíns Rússlandsforseta um að gripið verði til herkvaðningar til að halda áfram hernaði Rússa í Úkraínu. Pútín tilkynnti þetta í sjónvarpsávarpi í gær, auk þess sem hann hótaði því að Rússar kynnu að svara meintri „kjarnorkukúgun“ Vesturveldanna með beitingu eigin kjarnavopna.

„Ræðan er stigmögnun, en hún kemur þó ekki á óvart,“ sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, við Reuters-fréttastofuna. „Þess vegna erum við viðbúin. Við munum halda ró okkar og halda áfram að veita Úkraínu aðstoð. Ræða Pútíns forseta sýnir fram á að styrjöldin er ekki að fara samkvæmt áætlunum hans. Hann hefur misreiknað sig alvarlega.“

Volodímír Zelenskíj, forseti Úkraínu, sagðist ekki telja að Pútín myndi beita kjarnavopnum. Hann sagði jafnframt ekki standa til boða að láta undan hótunum hans. „Á morgun kann Pútín að segja: ‚Auk Úkraínu viljum við líka hluta af Póllandi, annars beitum við kjarnavopnum.“ Við getum ekki gert slíkar málamiðlanir.“

„Þetta er bara enn ein sönnun þess að Pútín hefur ekki áhuga á friði, að hann vill stigmagna þetta árásarstríð,“ sagði Peter Stano, talsmaður Evrópusambandsins. „Þetta er líka enn eitt ummerki um örvæntingu hans yfir framgangi árásarinnar í Úkraínu.“

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, þótti lítið til yfirlýsinga Pútíns koma og sagði þær merki um að hann væri orðinn skelkaður. „Við höfum heyrt orðræðu hans um kjarnavopn margoft áður og við erum orðin dofin fyrir henni.“

Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands, tók í sama streng. „Hvað varðar kjarnorkuhótanirnar er markmiðið það sama og hingað til – að sá ótta og skelfa almenning. Kreml reynir að fjárkúga alþjóðasamfélagið og vill hræða og aftra okkur frá því að hjálpa Úkraínu. Evrópa mun ekki láta undan.“