Mik­hail Khodar­enok, fyrr­verandi hátt settur ofursti í rúss­neska hernum, steig fram í rúss­neska sjón­varpinu á dögunum þar sem hann gagn­rýndi stríðs­rekstur Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seta í Úkraínu.

BBC greinir frá þessu og bendir á að afar ó­venju­legt sé að slík gagn­rýni komi fram í ríkis­reknum fjöl­miðli.

Khodar­enok var gestur í 60 Mínútum sem er einn vin­sælasti spjall­þáttur landsins. Í þættinum er á­kvörðunum yfir­valda í Kreml yfir­leitt hampað, þar á meðal hinni „sér­stöku hernaðar­að­gerð“ sem rúss­nesk stjórn­völd kalla stríðs­rekstur sinn í Úkraínu.

Í þættinum á mánu­dag bar svo við að Khodar­enok gagn­rýndi yfir­völd harð­lega og sagði að staðan í Úkraínu ætti að­eins eftir að versna fyrir Rússa. Úkraínu­menn nytu gríðar­legs stuðnings annarra þjóða, til dæmis í formi vopna og annarra her­gagna.

„Stærsti vandinn sem rúss­neski herinn og yfir­völd standa frammi fyrir er sú stað­reynd að við erum al­gjör­lega ein­angruð á hinu pólitíska sviði. Heimurinn er á móti okkur þó okkur sé illa við að viður­kenna það. Úr þessu þarf að leysa,“ sagði hann.

Þá benti hann á að Úkraínu­menn hafi ef til vill komið Rússum í opna skjöldu með bar­áttu­vilja sínum. Það sé hreint ekki rétt að úkraínski herinn sé að brotna saman því bar­áttu­vilji þeirra sé sannar­lega enn til staðar.

Í um­fjöllun BBC er bent á að aðrir gestir í settinu hafi verið hljóðir sem og þátta­stjórnandinn, Olga Skabeyeva, sem sjaldnast er sögð liggja á skoðunum sínum.