Mikhail Khodarenok, fyrrverandi hátt settur ofursti í rússneska hernum, steig fram í rússneska sjónvarpinu á dögunum þar sem hann gagnrýndi stríðsrekstur Vladimír Pútín Rússlandsforseta í Úkraínu.
BBC greinir frá þessu og bendir á að afar óvenjulegt sé að slík gagnrýni komi fram í ríkisreknum fjölmiðli.
Khodarenok var gestur í 60 Mínútum sem er einn vinsælasti spjallþáttur landsins. Í þættinum er ákvörðunum yfirvalda í Kreml yfirleitt hampað, þar á meðal hinni „sérstöku hernaðaraðgerð“ sem rússnesk stjórnvöld kalla stríðsrekstur sinn í Úkraínu.
Í þættinum á mánudag bar svo við að Khodarenok gagnrýndi yfirvöld harðlega og sagði að staðan í Úkraínu ætti aðeins eftir að versna fyrir Rússa. Úkraínumenn nytu gríðarlegs stuðnings annarra þjóða, til dæmis í formi vopna og annarra hergagna.
„Stærsti vandinn sem rússneski herinn og yfirvöld standa frammi fyrir er sú staðreynd að við erum algjörlega einangruð á hinu pólitíska sviði. Heimurinn er á móti okkur þó okkur sé illa við að viðurkenna það. Úr þessu þarf að leysa,“ sagði hann.
Þá benti hann á að Úkraínumenn hafi ef til vill komið Rússum í opna skjöldu með baráttuvilja sínum. Það sé hreint ekki rétt að úkraínski herinn sé að brotna saman því baráttuvilji þeirra sé sannarlega enn til staðar.
Í umfjöllun BBC er bent á að aðrir gestir í settinu hafi verið hljóðir sem og þáttastjórnandinn, Olga Skabeyeva, sem sjaldnast er sögð liggja á skoðunum sínum.
Extraordinary exchange on Russian state TV’s top talk show about Ukraine. Military analyst & retired colonel Mikhail Khodarenok tells anchor Olga Skabeyeva “the situation for us will clearly get worse…we’re in total geopolitical isolation…the situation is not normal.” pic.twitter.com/ExMwVDszsk
— Steve Rosenberg (@BBCSteveR) May 16, 2022