John Kerry, sendifulltrúi Bandaríkjanna í loftslagsmálum, segir innrásina í Úkraínu undirstrika mikilvægi orkuskipta í hreina orkugjafa. Kerry var viðstaddur ráðstefnunni Our Oceans sem haldin var á eyríkinu Palaú í Kyrrahafinu.
Rússland flytur út mikið af jarðolíu og stór hluti af orkuþörf Evrópu er uppfylltur með jarðolíu og gasi frá Rússlandi. Þjóðarleiðtogar í Evrópu hafa margir hverjir leitað leiða til að minnka innflutning á rússnesku eldsneyti og þar með koma höggi á rússneskan efnahag og Vladimír Pútín forseta Rússlands. Í mars ákváðu Bandaríkin að koma á banni við innflutning á rússneski eldsneyti.
„Nú er tími til að flýta fyrir orkuskiptum yfir í sjálfstæða og hreina framtíð í orkumálum,“ sagði Kerry í opnunarræðu sinni á ráðstefnunni. „Pútín forseti stjórnar ekki vind- eða sólarorku.“
Ráðstefnan er haldin á eyríkinu Palaú, ein af þeim eyjum sem stafar mest hætta af loftslagsbreytingum og hækkandi sjávarborði. Í Palaú búa um 18 þúsund manns.
Skipaflutningar, ofveiði og plastmengun
Kerry kallaði eftir því að skipaflutningar færi sig yfir í græna orku enda orkuþörfin mikil. Aðeins sjö lönd losa meira af gróðurhúsalofttegundum en skipaflutningar, að sögn Kerry.

Þá þurfi líka að tækla ólöglegar veiðar. Eyjaþjóðir í Kyrrahafinu reiða sig mörg hver á fiskveiðar til að komast lífs af en ólöglegar veiðar frá öðrum löndum búa til samkeppni sem erfitt er að eiga við.
Á ráðstefnunni var sýnd ræða Joe Biden forseta Bandaríkjanna sem tekin var upp áður. Þar fordæmdi hann ofveiði og plastmengun í sjó. Hann sagði að ríkisstjórn Bandaríkjanna myndi á næstu dögum kynna nýtt framtak í verndun sjávar.
Forseti Palaú, Surangel Whipps Jr., talaði á svipuðum nótum og sagði loftslagsvandann einnig vera mannúðarvanda. Hann sagði mikilvægt að þjóðir eins og Palaú búi til jafnvægi milli fiskveiða og verndunar.