John Kerry, sendi­full­trúi Banda­ríkjanna í lofts­lags­málum, segir inn­rásina í Úkraínu undir­strika mikil­vægi orku­skipta í hreina orku­gjafa. Kerry var við­staddur ráð­stefnunni Our Oceans sem haldin var á eyríkinu Palaú í Kyrra­hafinu.

Rúss­land flytur út mikið af jarð­olíu og stór hluti af orku­þörf Evrópu er upp­fylltur með jarð­olíu og gasi frá Rúss­landi. Þjóðar­leið­togar í Evrópu hafa margir hverjir leitað leiða til að minnka inn­flutning á rúss­nesku elds­neyti og þar með koma höggi á rúss­neskan efna­hag og Vla­dimír Pútín for­seta Rúss­lands. Í mars á­kváðu Banda­ríkin að koma á banni við inn­flutning á rúss­neski elds­neyti.

„Nú er tími til að flýta fyrir orku­skiptum yfir í sjálf­stæða og hreina fram­tíð í orku­málum,“ sagði Kerry í opnunar­ræðu sinni á ráð­stefnunni. „Pútín for­seti stjórnar ekki vind- eða sólar­orku.“

Ráð­stefnan er haldin á eyríkinu Palaú, ein af þeim eyjum sem stafar mest hætta af lofts­lags­breytingum og hækkandi sjávar­borði. Í Palaú búa um 18 þúsund manns.

Skipaflutningar, ofveiði og plastmengun

Kerry kallaði eftir því að skipa­flutningar færi sig yfir í græna orku enda orku­þörfin mikil. Að­eins sjö lönd losa meira af gróður­húsa­loft­tegundum en skipa­flutningar, að sögn Kerry.

Nokkrar af eyjunum sem tilheyra eyríkinu Palaú, Rock Islands, sem settar voru á heimsminjaskrá UNESCO. Fjölbryett lífríki er á og við eyjarnar.
Fréttablaðið/Getty

Þá þurfi líka að tækla ó­lög­legar veiðar. Eyja­þjóðir í Kyrra­hafinu reiða sig mörg hver á fisk­veiðar til að komast lífs af en ó­lög­legar veiðar frá öðrum löndum búa til sam­keppni sem erfitt er að eiga við.

Á ráð­stefnunni var sýnd ræða Joe Biden for­seta Banda­ríkjanna sem tekin var upp áður. Þar for­dæmdi hann of­veiði og plast­mengun í sjó. Hann sagði að ríkis­stjórn Banda­ríkjanna myndi á næstu dögum kynna nýtt fram­tak í verndun sjávar.

For­seti Palaú, Surangel Whipps Jr., talaði á svipuðum nótum og sagði lofts­lags­vandann einnig vera mann­úðar­vanda. Hann sagði mikil­vægt að þjóðir eins og Palaú búi til jafn­vægi milli fisk­veiða og verndunar.