Tveir meðlimir öfgahópsins Proud Boys, Nicholas Ochs og Nicholas DeCarlo, hafa nú verið handteknir og ákærðir fyrir þátttöku þeirra í óeirðunum við þinghúsið í Washington, D.C., þann 6. janúar en þó nokkrir meðlimir hópsins hafa verið til rannsóknar síðastliðnar vikur.
Að því er kemur fram í frétt CNN um málið hefur dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna ákært mennina fyrir samsæri en samkvæmt ákærunni voru óeirðirnar vel skipulagðar af þeirra hálfu með það að markmiði að stöðva staðfestingu þingsins á úrslitum forsetakosninganna í nóvember.
Þá segir að þeir hafi staðið fyrir fjáröflun svo þeir gætu komist til borgarinnar frá Texas annars vegar og Hawaii hins vegar, þar sem þeir eiga heima. Þeir eru meðal annars sakaðir um að skrifa „myrðum fjölmiðlana“ við inngang þinghúsins og stela handjárnum lögreglu, en ákærurnar eru í sjö liðum.
NEW: Two prominent members of the Proud Boys face new conspiracy charges related to the US Capitol riot, @evanperez @kpolantz report. The Justice Dept. laid out a planning and funding effort within the Trump-supporting extremist group. https://t.co/7V6jjSaWsh
— Adam Levine (@cnnadam) February 3, 2021
Proud Boys hryðjuverkasamtök í Kanada
Hópurinn, sem er öfga hægrisinnaður og þekktur fyrir ofbeldi, hefur verið mikið til umræðu síðastliðna mánuði en Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, virtist hvetja hópinn áfram eftir óeirðirnar í Bandaríkjunum síðastliðið sumar í kjölfar dauða George Floyd.
Fjölmargir hafa fordæmt hópinn og lýsti forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, því til að mynda yfir í gær að hópurinn væri flokkaður sem hryðjuverkasamtök, líkt og ISIS, Boko Haram, al Qaeda, og fleiri.
Síðastliðnar vikur hafa að minnsta kosti ellefu meðlimir Proud Boys verið ákærðir eða handteknir fyrir þeirra hlutverk í óeirðunum, til að mynda Joseph Biggs, Ethan Nordean, William Pepe, og Dominic Pezzola, sem hafa verið áberandi innan hópsins.
Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, hefur síðastliðnar vikur reynt að hafa uppi á ýmsum aðilum sem brutust inn í þinghúsið og er það til umræðu að ákæra þá einstaklinga fyrir uppreisnaráróður gegn ríkinu. Enn sem komið er hafa þó engar slíkar ákærur verið gefnar út.
Segja Trump einan bera ábyrgð
Donald Trump á þó yfir höfði sér ákærur til embættismissis fyrir að hvetja til uppreisnar en öldungadeild Bandaríkjaþings mun taka málið fyrir í næstu viku. Þar verður því haldið fram að Trump hafi borið ábyrgð á óeirðunum einn og sér.
Tveir þriðju þingmanna öldungadeildarinnar þurfa að samþykkja ákærurnar til að Trump verði sakfelldur en Repúblikanar og Demókratar eru með jafn marga þingmenn innan deildarinnar. Þannig þurfa 17 þingmenn Repúblikana að greiða atkvæði gegn Trump.
House impeachment managers laid out their case against Donald Trump in an 80-page brief on Tuesday, asserting that he was “singularly responsible” for the deadly assault on the Capitol and that he must be convicted and barred from holding public office. https://t.co/cDrceS0E8e pic.twitter.com/L8RtxBx8tv
— The New York Times (@nytimes) February 3, 2021