Tveir með­limir öfga­hópsins Proud Boys, Nicholas Ochs og Nicholas De­Car­lo, hafa nú verið hand­teknir og á­kærðir fyrir þátt­töku þeirra í ó­eirðunum við þing­húsið í Was­hington, D.C., þann 6. janúar en þó nokkrir með­limir hópsins hafa verið til rann­sóknar síðast­liðnar vikur.

Að því er kemur fram í frétt CNN um málið hefur dóms­mála­ráðu­neyti Banda­ríkjanna á­kært mennina fyrir sam­særi en sam­kvæmt á­kærunni voru ó­eirðirnar vel skipu­lagðar af þeirra hálfu með það að mark­miði að stöðva stað­festingu þingsins á úr­slitum for­seta­kosninganna í nóvember.

Þá segir að þeir hafi staðið fyrir fjár­öflun svo þeir gætu komist til borgarinnar frá Texas annars vegar og Hawa­ii hins vegar, þar sem þeir eiga heima. Þeir eru meðal annars sakaðir um að skrifa „myrðum fjöl­miðlana“ við inn­gang þing­húsins og stela hand­járnum lög­reglu, en á­kærurnar eru í sjö liðum.

Proud Boys hryðjuverkasamtök í Kanada

Hópurinn, sem er öfga hægri­sinnaður og þekktur fyrir of­beldi, hefur verið mikið til um­ræðu síðast­liðna mánuði en Donald Trump, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seti, virtist hvetja hópinn á­fram eftir ó­eirðirnar í Banda­ríkjunum síðast­liðið sumar í kjöl­far dauða Geor­ge Floyd.

Fjöl­margir hafa for­dæmt hópinn og lýsti for­sætis­ráð­herra Kanada, Justin Tru­deau, því til að mynda yfir í gær að hópurinn væri flokkaður sem hryðju­verka­sam­tök, líkt og ISIS, Boko Haram, al Qa­eda, og fleiri.

Síðast­liðnar vikur hafa að minnsta kosti ellefu með­limir Proud Boys verið á­kærðir eða hand­teknir fyrir þeirra hlut­verk í ó­eirðunum, til að mynda Joseph Biggs, Et­han Nor­dean, Willi­am Pepe, og Dominic Pezzola, sem hafa verið á­berandi innan hópsins.

Al­ríkis­lög­regla Banda­ríkjanna, FBI, hefur síðast­liðnar vikur reynt að hafa uppi á ýmsum aðilum sem brutust inn í þing­húsið og er það til um­ræðu að á­kæra þá ein­stak­linga fyrir upp­reisnar­á­róður gegn ríkinu. Enn sem komið er hafa þó engar slíkar á­kærur verið gefnar út.

Segja Trump einan bera ábyrgð

Donald Trump á þó yfir höfði sér á­kærur til em­bættis­missis fyrir að hvetja til upp­reisnar en öldunga­deild Banda­ríkja­þings mun taka málið fyrir í næstu viku. Þar verður því haldið fram að Trump hafi borið á­byrgð á ó­eirðunum einn og sér.

Tveir þriðju þing­manna öldunga­deildarinnar þurfa að sam­þykkja á­kærurnar til að Trump verði sak­felldur en Repúblikanar og Demó­kratar eru með jafn marga þing­menn innan deildarinnar. Þannig þurfa 17 þing­menn Repúblikana að greiða at­kvæði gegn Trump.