Nýr Ford Ranger verður byggður á sama undirvagni og Volkswagen Amarok pallbíllinn en Ford og VW Group hafa gert með sér stóran framleiðslusamning um atvinnubíla. Nýr Volkswagen Amarok verður einnig frumsýndur á næsta ári. Eins og sést á myndunum verður bíllinn nokkurs konar þróun á núverandi útliti þar sem blandast saman stærðarhlutföll evrópskra pallbíla við kassalaga útlit hins ameríska. Breytingarnar eru í takt við nýtt útlit stóra bróðir sem er F-150 pallbíllinn. Búast má við endurhönnuðu fjórhjóladrifi og nýrri fjöðrun svo dæmi sé tekið.

Bílarnir verða búnir tveggja lítra EcoBlue dísilvélum, allavega til að byrja með. Engar upplýsingar hafa borist frá Ford um hvort að rafdrifin útgáfa Ranger sé í kortunum, en þegar eru komnir fram rafútgáfur af Transit og F-150 svo það er ekki útilokað. Loks má búast við að innréttingin verði af nýrri gerð, svipuð og í Ford Kuga með skörpum átta tommu snertiskjá. Búast má við Raptor útgáfu fljótlega því að sést hefur til þannig útgáfu við prófanir jafnvel þó að Ford hafi ekki látið frá sér myndir af honum ennþá.