Miðvikudaginn 25. janúar næstkomandi mun Hæstiréttur Íslands fjalla um lögmæti uppgreiðslugjalds ÍL-sjóðs (áður Íbúðalánasjóður) í máli sambúðarfólks gegn sjóðnum. Með dómi fjölskipaðs Héraðsdóms Reykjavíkur frá 17. desember 2020 var fallist á kröfur lántakendanna um endurgreiðslu á um 2,8 milljóna króna uppgreiðslugjaldi, sem þeim var gert að greiða í tengslum við uppgreiðslu láns sem var upphaflega að fjárhæð 20 milljónir króna.
Niðurstaða réttarins byggði á því að sjóðurinn hefði brotið gegn þágildandi neytendalánalögum með því að tilgreina ekki í skuldabréfi hvernig uppgreiðslugjaldið skyldi reiknað út og hvenær slíkur uppgreiðslukostnaður félli til.
ÍL-sjóður sótti í framhaldinu um leyfi til þess að áfrýja héraðsdóminum beint til Hæstaréttar, án málsmeðferðar í Landsréttar. Slíkt leyfi skal ekki veitt nema brýn þörf sé á skjótri úrlausn réttarins um efnið og niðurstaðan geti verið fordæmisgefandi eða haft verulega samfélagslega þýðingu.
Hæstiréttur taldi þessi skilyrði uppfyllt í málinu og samþykkti, í fyrsta skipti, slíka beina áfrýjun. Í framhaldinu var málið flutt fyrir fjölskipuðum sjö manna Hæstarétti sem komst að þeirri niðurstöðu í maí 2021 að annmarki hefði verið á dómi héraðsdóms. Var dómur hans því ómerktur og málinu vísað aftur til málsmeðferðar í héraði. Þrátt fyrir það tiltók Hæstiréttur sérstaklega að niðurstaða héraðsdóms um brot gegn neytendalánalögum í aðdraganda lánveitingar væri rétt.
Málið var í framhaldinu aftur flutt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, en í það skipti taldi héraðsdómari að óumdeild brot á neytendalánalögum skyldu ekki hafa þær afleiðingar að sambúðarfólkið ætti rétt á endurgreiðslu uppgreiðslugjaldsins og var sjóðurinn því sýknaður af kröfum þess. Sú niðurstaða var staðfest af Landsrétti í apríl á síðasta ári.
Í framhaldinu sótti sambúðarfólkið um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar og samþykkti rétturinn þá beiðni með þeim rökum að dómur í málinu geti haft fordæmisgildi um atriði sem áfrýjunarleyfisbeiðnin er reist á. Málið verður sem fyrr segir 25. janúar fyrir Hæstarétti og mun þá væntanlega skýrast hvort brot Íbúðalánasjóðs á neytendalánalögum með því að tiltaka ekki útreikning uppgreiðslugjalds í lánssamningi, hafi þær afleiðingar að lántakar eigi rétt á endurgreiðslu uppgreiðslugjaldsins.
Í málinu reynir á lánaskilmála sem eru nokkuð frábrugðnir þeim skilmálum sem reyndi á í öðru dómsmáli þar sem ÍL-sjóður var sýknaður í Hæstarétti á árinu 2021. Ætla má að þeir lánaskilmálar sem nú eru fyrir dómi hafi verið mun minna notaðir og því verði áhrif á ríkissjóð takmörkuð verði niðurstaða Landsréttar sambúðarfólkinu í vil.
Jónas Fr. Jónsson, lögmaður sambúðarfólksins, sagði í samtali við mbl.is í júní 2022, eftir að Hæstiréttur samþykkti að taka málið fyrir, að hann teldi þetta mál vera prófstein á réttindi neytenda.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir fullkomlega óeðlilegt að lánafyrirtæki hafi sjálfdæmi um útreikning og fjárhæð uppgreiðslugjalds og séu ekki gerð ábyrg fyrir brotum á neytendalánalögum. Hann segir uppgreiðsluskilmála ÍL-sjóðs ósanngjarna og dómafordæmi séu í evrópskum rétti fyrir því að ósanngjarnir skilmálar neytendalána séu ógiltir en lánin látin standa að öðru leyti. „Þetta er meðal annars til að fæla fjármálafyrirtæki frá því að beita aflsmun gagnvart neytendum,“ segir Breki.