Aðalmeðferð fór fram í gær í máli Huldu Rósar Guðnadóttur myndlistarkonu gegn Reykjavíkurborg í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Hulda Rós stefnir borginni fyrir meinta ólögmæta notkun á myndefni á sýningu í Sjóminjasafninu. Þegar Hulda heimsótti safnið árið 2020 segist hún hafa komist að raun um ólöglega notkun á eigin myndverkum á safninu og hún telji málið mikilvægt prófmál fyrir réttindamál höfunda til framtíðar. Um var að ræða nokkrar mínútur úr heimildarmyndinni Keep Frozen frá árinu 2016. Hulda Rós var aðalhandritshöfundur og leikstjóri myndarinnar. Myndin var sýnd í Bíó Paradís og á listasöfnum víða erlendis.

Að sögn Auðar Tinnu Aðalbjarnardóttur, lögmanns Huldu Rósar, var myndinni blandað saman við önnur myndverk á sýningunni í Sjóminjasafninu. Auður Tinna segir að umbjóðandi sinn telji að borgin hafi komið fram af hörku í málinu og gert stærri ágreining úr málinu en þurfti. Dómkröfur Huldu eru fjárkrafa vegna notkunar og miskabætur samtals 2 milljónir króna auk lögmannsþóknunar. Málið hefur nú verið dómtekið og má vænta niðurstöðu innan fjögurra vikna.