Prófkjör Pírata hefst í dag klukkan 16. Því lýkur 13. mars og þá mun liggja fyrir hver skipa efstu sæti á listum Pírata fyrir næstu alþingiskosningar.

Í tilkynningu frá flokknum kemur fram að kosningin er rafræn og að hún fari fram í kosningakerfi Pírata, x.piratar.is. Á kjörskrá eru um 3.300 manns og hefur þeim fjölgað um rúmlega 500 frá upphafi árs.

Píratar ætla að bjóða fram í öllum kjördæmum í komandi kosningum. Sameiginlegt prófkjör er fyrir Reykjavíkurkjördæmin tvö.

Prófkjör Pírata er opið öllum, hver sem er getur boðið sig fram og greitt atkvæði. Framboðsfrestur rennur út klukkan 14 í dag og þau sem skráðu sig í kosningakerfið fyrir 13. febrúar eru með atkvæðisrétt.

Sem fyrr segir stendur kosningin í prófkjörinu yfir í 10 sólarhringa. Úrslitin verða tilkynnt með formlegum hætti síðdegis 13. mars.

Fjölmargir hafa opinberlega gefið kost á sér í forvalið, svo sem Oktavía Hrund, Ingimar Þór Friðriksson, Einar A. Brynjólfsson, Andrés Ingi sem áður var í VG og Katrín Sif, ljósmóðir.