Samþykkt var á fjölmennum Zoom-fundi Kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í kvöld að haldið verði prófkjör í Suðvesturkjördæmi. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum.
Þar segir að í prófkjörinu muni flokksmenn velja frambjóðendur á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar sem fara fram í haust.
„Kjörnefnd Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi bar þá tillögu upp fyrir fundinn í kvöld að haldið yrði prófkjör í kjördæminu. Mikill einhugur var um þá tillögu,“ segir í tilkynningunni.
Fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, leiddi lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir síðustu kosningar. Flokkurinn er með fjóra þingmenn í kjördæminu. Auk Bjarna eru það Bryndís Haraldsdóttir, Jón Gunnarsson og Óli Björn Kárason.