Fimm kennarar og prófessorar við LHÍ hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir gagnrýna starfsauglýsingu um nýjan rektor háskólans og segja hana fara á svig við háskólalög og heilbrigða skynsemi.
Fréttablaðið greindi frá því fyrr í mánuðinum að borið hafi á óánægju með orðalag starfsauglýsingarinnar meðal starfsmanna Listaháskólans en stjórnarformaður LHÍ, Magnús Ragnarsson, vísaði gagnrýninni alfarið á bug.
„Með auglýsingu um embætti rektors Listaháskóla Íslands er farið hressilega á svig við lög um háskóla (2006 nr. 63) – og heilbrigða skynsemi. Sú eina hæfniskrafa sem er bundin í háskólalög er ekki nefnd í auglýsingunni,“ segir í yfirlýsingu sexmenninganna sem starfa allir við tónlistardeild LHÍ.
Í yfirlýsingunni er vísað til 15. greinar laga um háskóla þar sem segir:
„Rektor skal uppfylla kröfur 1. mgr. 18. gr. sem háskólakennari á einu eða fleiri viðurkenndum fræðasviðum viðkomandi háskóla.“
Veikt og óljóst orðalag
Prófessorarnir og kennararnir sem eru skrifaðir fyrir auglýsingunni segja hæfniskröfur starfsauglýsingarinnar vera með veiku og óljósu orðalagi og segja að í tilfelli Listaháskólans eigi „ ekki að koma til greina annað en að rektorinn sé framúrskarandi fag- eða fræðimanneskja á sviði þeirra listgreina sem fengist er við í skólanum.“
Haft var eftir stjórnarformanni LHÍ, Magnúsi Ragnarssyni, að hæfnisnefnd Listaháskólans myndi aldrei taka annað til greina en að ráða einstakling sem stæðist þær kröfur sem teknar eru fram í háskólalögum.
Með auglýsingu um embætti rektors Listaháskóla Íslands er farið hressilega á svig við lög um háskóla (2006 nr. 63) – og heilbrigða skynsemi. Sú eina hæfniskrafa sem er bundin í háskólalög er ekki nefnd í auglýsingunni.
Treysta ekki stjórnarformanni
Í yfirlýsingu kennarana segjast þeir ekki efast um að hæfnisnefndin fari eftir lögum en að „þessi stórgallaða auglýsing mun ekki hjálpa henni í störfum sínum“.
Þá segjast þeir engan veginn treysta stjórnarformanni LHÍ.
„Miðað við framgöngu Magnúsar í viðtalinu í Fréttablaðinu treystum við honum engan veginn til að vera í forsvari fyrir endanlega ákvörðunartöku um nýjan rektor Listaháskóla Íslands. Stjórn Listaháskólans ætti að sjá sóma sinn í að auglýsa stöðuna á ný í samræmi við lög.“
Yfirlýsinguna má lesa í heild sinni hér að neðan.

Rektorsslys í undirbúningi?
Með auglýsingu um embætti rektors Listaháskóla Íslands er farið hressilega á svig við lög um háskóla (2006 nr. 63) – og heilbrigða skynsemi. Sú eina hæfniskrafa sem er bundin í háskólalög er ekki nefnd í auglýsingunni. Í 15. grein háskólalaga segir: „Rektor skal uppfylla kröfur 1. mgr. 18. gr. sem háskólakennari á einu eða fleiri viðurkenndum fræðasviðum viðkomandi háskóla.“
Í hæfniskröfum auglýsingarinnar er orðalagið veikt og óljóst:
„Víðtæk þekking á rannsóknum, starfi háskóla og staðgóð þekking á listum og skapandi greinum.“
„Reynsla á einhverju af fagsviðum Listaháskóla Íslands er kostur.“
Ekki er minnst á listrænan feril eða prófgráður. Fyrri greinin hér er reyndar klúðurslega orðuð. Nemendur Listaháskólans hefðu fengið athugasemd hér. Eftirfarandi væri skárra en ekki gott: Víðtæk þekking á rannsóknum og starfi háskóla. Staðgóð þekking á listum og skapandi greinum. En hvers vegna á þekkingin á rannsóknum og starfi háskóla að vera víðtæk en þekking á listum og skapandi greinum staðgóð? Og hvers vegna eru rannsóknir ekki teknar með í „starfi háskóla“? Hefði ekki verið einfaldara að vitna beint í lagagreinina um þær kröfur sem eru gerðar til háskólarektors? Lögin byggja einfaldlega á heilbrigðri skynsemi. Stjórnandi hvaða fyrirtækis sem er þarf að hafa vit á þeirri starfsemi sem þar fer fram.
Í tilfelli fjölgreinaháskóla er að sjálfsögðu ekki hægt að finna rektor með sérþekkingu á öllum sviðum hans. Okkur virðist að Háskóli Íslands hafi farið skynsamlega leið í gegnum árin með því að velja til forystu fólk úr ólíkum greinum. Nú er þar einn fremsti vísindamaður heims á sviði rafmagnsverkfræði við stjórn. Á undan honum var lyfjafræðingur rektor og um aldamótin var rektorinn heimspekingur, bæði í fremstu röð í sínum greinum.
Í tilfelli Listaháskólans á að sjálfsögðu ekki að koma til greina annað en að rektorinn sé framúrskarandi fag- eða fræðimanneskja á sviði þeirra listgreina sem fengist er við í skólanum.
Formaður stjórnar Listaháskólans, Magnús Ragnarsson kýs að svara gagnrýni með því að ákalla guð almáttugan í Fréttablaðinu 8. desember, auk þess að fullyrða:
„... þeir sem koma til greina samkvæmt lögum eru miklu fleiri en þeir sem hafa reynslu af fagsviðum okkar“. (Leturbreyting bréfritara)
Þetta er einfaldlega rangt. Lagagreinin sem vitnað er í hér að ofan er algjörlega skýr. Orð Magnúsar bera vott um vægast sagt furðulega túlkun þessarar greinar og honum finnst „umræðan bara mjög sérstök.“
Það er erfitt að rökræða við þá sem segja að svart sé hvítt. Við efumst reyndar ekki um, frekar en Magnús, að hæfisnefndin fari eftir lögum en þessi stórgallaða auglýsing mun ekki hjálpa henni í störfum sínum. Það er stjórn Listaháskólans sem veitir stöðuna. Miðað við framgöngu Magnúsar í viðtalinu í Fréttablaðinu treystum við honum engan veginn til að vera í forsvari fyrir endanlega ákvörðunartöku um nýjan rektor Listaháskóla Íslands. Stjórn Listaháskólans ætti að sjá sóma sinn í að auglýsa stöðuna á ný í samræmi við lög.
Kennarar við tónlistardeild:
Einar Torfi Einarsson
Prófessor
Hildigunnur Rúnarsdóttir
Aðjúnkt í tónsmíðum og fræðum
Kolbeinn Bjarnason
Stundakennari
Sigurður Halldórsson
Prófessor og fagstjóri NAIP
Úlfar Ingi Haraldsson
Aðjúnkt í tónsmíðum og fræðum