Fimm kennarar og prófessorar við LHÍ hafa sent frá sér yfir­lýsingu þar sem þeir gagn­rýna starfs­aug­lýsingu um nýjan rektor há­skólans og segja hana fara á svig við há­skóla­lög og heil­brigða skyn­semi.

Frétta­blaðið greindi frá því fyrr í mánuðinum að borið hafi á ó­á­nægju með orða­lag starfs­aug­lýsingarinnar meðal starfs­manna Lista­há­skólans en stjórnar­for­maður LHÍ, Magnús Ragnars­son, vísaði gagn­rýninni al­farið á bug.

„Með aug­lýsingu um em­bætti rektors Lista­há­skóla Ís­lands er farið hressi­lega á svig við lög um há­skóla (2006 nr. 63) – og heil­brigða skyn­semi. Sú eina hæfniskrafa sem er bundin í há­skóla­lög er ekki nefnd í aug­lýsingunni,“ segir í yfir­lýsingu sex­menninganna sem starfa allir við tón­listar­deild LHÍ.

Í yfir­lýsingunni er vísað til 15. greinar laga um há­skóla þar sem segir:

„Rektor skal upp­fylla kröfur 1. mgr. 18. gr. sem há­skóla­kennari á einu eða fleiri viður­kenndum fræða­sviðum við­komandi há­skóla.“

Veikt og ó­ljóst orða­lag

Prófessorarnir og kennararnir sem eru skrifaðir fyrir aug­lýsingunni segja hæfnis­kröfur starfs­aug­lýsingarinnar vera með veiku og ó­ljósu orða­lagi og segja að í til­felli Lista­há­skólans eigi „ ekki að koma til greina annað en að rektorinn sé fram­úr­skarandi fag- eða fræði­manneskja á sviði þeirra list­greina sem fengist er við í skólanum.“

Haft var eftir stjórnar­for­manni LHÍ, Magnúsi Ragnars­syni, að hæfnis­nefnd Lista­há­skólans myndi aldrei taka annað til greina en að ráða ein­stak­ling sem stæðist þær kröfur sem teknar eru fram í há­skóla­lögum.

Með aug­lýsingu um em­bætti rektors Lista­há­skóla Ís­lands er farið hressi­lega á svig við lög um há­skóla (2006 nr. 63) – og heil­brigða skyn­semi. Sú eina hæfniskrafa sem er bundin í há­skóla­lög er ekki nefnd í aug­lýsingunni.

Treysta ekki stjórnar­for­manni

Í yfir­lýsingu kennarana segjast þeir ekki efast um að hæfnis­nefndin fari eftir lögum en að „þessi stór­gallaða aug­lýsing mun ekki hjálpa henni í störfum sínum“.

Þá segjast þeir engan veginn treysta stjórnar­for­manni LHÍ.

„Miðað við fram­göngu Magnúsar í við­talinu í Frétta­blaðinu treystum við honum engan veginn til að vera í for­svari fyrir endan­lega á­kvörðunar­töku um nýjan rektor Lista­há­skóla Ís­lands. Stjórn Lista­há­skólans ætti að sjá sóma sinn í að aug­lýsa stöðuna á ný í sam­ræmi við lög.“

Yfir­lýsinguna má lesa í heild sinni hér að neðan.

Fríða Björk Ingvarsdóttir, fráfarandi rektor LHÍ.
Fréttablaðið/GVA

Rektors­slys í undir­búningi?

Með aug­lýsingu um em­bætti rektors Lista­há­skóla Ís­lands er farið hressi­lega á svig við lög um há­skóla (2006 nr. 63) – og heil­brigða skyn­semi. Sú eina hæfniskrafa sem er bundin í há­skóla­lög er ekki nefnd í aug­lýsingunni. Í 15. grein há­skóla­laga segir: „Rektor skal upp­fylla kröfur 1. mgr. 18. gr. sem há­skóla­kennari á einu eða fleiri viður­kenndum fræða­sviðum við­komandi há­skóla.“

Í hæfnis­kröfum aug­lýsingarinnar er orða­lagið veikt og ó­ljóst:

„Víð­tæk þekking á rann­sóknum, starfi há­skóla og stað­góð þekking á listum og skapandi greinum.“

„Reynsla á ein­hverju af fag­sviðum Lista­há­skóla Ís­lands er kostur.“

Ekki er minnst á list­rænan feril eða próf­gráður. Fyrri greinin hér er reyndar klúðurs­lega orðuð. Nem­endur Lista­há­skólans hefðu fengið at­huga­semd hér. Eftir­farandi væri skárra en ekki gott: Víð­tæk þekking á rann­sóknum og starfi há­skóla. Stað­góð þekking á listum og skapandi greinum. En hvers vegna á þekkingin á rann­sóknum og starfi há­skóla að vera víð­tæk en þekking á listum og skapandi greinum stað­góð? Og hvers vegna eru rann­sóknir ekki teknar með í „starfi há­skóla“? Hefði ekki verið ein­faldara að vitna beint í laga­greinina um þær kröfur sem eru gerðar til há­skóla­rektors? Lögin byggja ein­fald­lega á heil­brigðri skyn­semi. Stjórnandi hvaða fyrir­tækis sem er þarf að hafa vit á þeirri starf­semi sem þar fer fram.

Í til­felli fjöl­greina­há­skóla er að sjálf­sögðu ekki hægt að finna rektor með sér­þekkingu á öllum sviðum hans. Okkur virðist að Há­skóli Ís­lands hafi farið skyn­sam­lega leið í gegnum árin með því að velja til for­ystu fólk úr ó­líkum greinum. Nú er þar einn fremsti vísinda­maður heims á sviði raf­magns­verk­fræði við stjórn. Á undan honum var lyfja­fræðingur rektor og um alda­mótin var rektorinn heim­spekingur, bæði í fremstu röð í sínum greinum.

Í til­felli Lista­há­skólans á að sjálf­sögðu ekki að koma til greina annað en að rektorinn sé fram­úr­skarandi fag- eða fræði­manneskja á sviði þeirra list­greina sem fengist er við í skólanum.

For­maður stjórnar Lista­há­skólans, Magnús Ragnars­son kýs að svara gagn­rýni með því að á­kalla guð al­máttugan í Frétta­blaðinu 8. desember, auk þess að full­yrða:

„... þeir sem koma til greina sam­kvæmt lögum eru miklu fleiri en þeir sem hafa reynslu af fag­sviðum okkar“. (Letur­breyting bréf­ritara)

Þetta er ein­fald­lega rangt. Laga­greinin sem vitnað er í hér að ofan er al­gjör­lega skýr. Orð Magnúsar bera vott um vægast sagt furðu­lega túlkun þessarar greinar og honum finnst „um­ræðan bara mjög sér­stök.“

Það er erfitt að rök­ræða við þá sem segja að svart sé hvítt. Við efumst reyndar ekki um, frekar en Magnús, að hæfis­nefndin fari eftir lögum en þessi stór­gallaða aug­lýsing mun ekki hjálpa henni í störfum sínum. Það er stjórn Lista­há­skólans sem veitir stöðuna. Miðað við fram­göngu Magnúsar í við­talinu í Frétta­blaðinu treystum við honum engan veginn til að vera í for­svari fyrir endan­lega á­kvörðunar­töku um nýjan rektor Lista­há­skóla Ís­lands. Stjórn Lista­há­skólans ætti að sjá sóma sinn í að aug­lýsa stöðuna á ný í sam­ræmi við lög.

Kennarar við tón­listar­deild:

Einar Torfi Einars­son
Prófessor

Hildi­gunnur Rúnars­dóttir
Aðjúnkt í tón­smíðum og fræðum

Kol­beinn Bjarna­son
Stunda­kennari

Sigurður Hall­dórs­son
Prófessor og fag­stjóri NAIP

Úlfar Ingi Haralds­son
Aðjúnkt í tón­smíðum og fræðum