Eiríkur Örn Arnarson, prófessor emeritus við læknadeild Háskóla Íslands, segir mikilvægt að skima alla unglinga í grunnskóla fyrir þunglyndi og hjálpa þeim sem sýna einkenni geðlægðar að takast á við hugsanir sínar.

Eiríkur gerði ítarlega rannsókn á geðheilsu unglinga í sex sveitarfélögum á Íslandi fyrir um áratug sem sýndi að snemmbær íhlutun gæti skipt sköpum fyrir ungt fólk. „Með því að grípa tímanlega inn í atburðarásina var hægt að seinka eða koma í veg fyrir þróun geðlægðar,“ segir Eiríkur.

Áhrif faraldursins

Eiríkur bendir á að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafi gefið það út áður en kórónaveirufaraldurinn hófst að þunglyndi yrði að öllum líkindum útbreiddasti sjúkdómur heimsins árið 2030.

„Svo vitum við að Covid hefur haft talsvert mikil áhrif á geðrænt ástand og aukið vanlíðan. Við vitum í raun ekki hvaða langtímaáhrif þetta muni hafa, að hafa ekki getað sótt skóla eða verið með vinum,“ segir Eiríkur sem hefur starfað nær alla sína starfsævi á geðdeild Landspítalans.

Rannsókn Eiríks, sem hann vann með bandaríska sálfræðingnum Edward Craighead, birtist í fagtímaritinu Behaviour Research and Therapy og vakti mikla athygli.

„Við gerðum rannsókn á sex sveitarfélögum. Í meðalskóla eru í kringum 100 nemendur í 9. bekk og við skimuðum þar. Með einfaldri skimun komumst við að því að það voru 10 til 14 einstaklingar með einkenni geðlægðar. Þeim var síðan boðið að taka þátt í námskeiði sem byggðist á hugmyndafræði hugrænnar atferlismeðferðar,“ segir Eiríkur.

„Þeim var síðan dreift af handahófi í tvo hópa. Annar fékk námskeið og síðan var fylgst með hinum. Síðan kom í ljós í eins árs eftirfylgd að það voru um fimm sinnum meiri líkur á því að þeir sem ekki höfðu setið námskeiðið, en voru sambærilegir í upphafi, hefðu þróað með sér lotu meiriháttar geðlægðar,“ bætir hann við.

Algengara meðal stúlkna

Í nýlegu viðtali við Eirík í Læknablaðinu segir að stigveldisaukning verði á geðlægð ungmenna í 9. bekk og kynjamunurinn fari að koma fram. Þunglyndi er um helmingi algengara meðal stúlkna en drengja. Við 18 ára aldur er talið að um 15 prósent ungmenna hafi lifað meiri háttar lotu geðlægðar.

Spurður hvort hann telji nægilega margt fagfólk til á Íslandi til að ráðast í verkefnið í öllum skólum telur Eiríkur svo vera.

„Þetta er tiltölulega einfalt í framkvæmd,“ segir Eiríkur og bætir við að með þessu megi létta á heilbrigðiskerfinu til lengri tíma.