Karl III. Breta­konungur á­varpaði bresku þjóðina í gær og var það í fyrsta skiptið sem hann kom fram opin­ber­lega frá and­láti móður sinnar, Elísa­betar II. Breta­drottningar. Sagði Karl meðal annars að gildi bresku þjóðarinnar yrðu að vera stöðug, þrátt fyrir breytingar og á­skoranir sem hún hefur orðið fyrir.

„Það er nú lík­legast að valda­skiptin hafi engar stjórn­skipu­legar af­leiðingar, em­bætti þjóð­höfðingjans er al­gjör­lega valda­laust,“ segir Ólafur Þ. Harðar­son prófessor í stjórn­mála­fræði við Há­skóla Ís­lands.

Í kjöl­far and­láts Elísa­betar hafa margir velt því fyrir sér hvort lík­legt sé að konungs­veldið riði til falls.

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Fréttablaðið/ERNIR

„Það er náttúru­lega engin leið að segja en mér finnst það afar ó­lík­legt,“ segir Ólafur. Elísa­bet hafi verið tákn­rænt sam­einingar­tákn og mjög elskuð af þegnum sínum. „Það er nú ó­lík­legt að Karl nái þeirri stöðu, hann er lík­legur til að vera um­deildari,“ segir hann.

Lýð­veldis­sinnar hafa aldrei verið sterkir í Bret­landi, að sögn Ólafs. „Í rauninni hafa engar til­raunir komið upp í gegnum tíðina til að af­nema konung­dæmið, ekki síðan 1649,“ segir hann.

„Það er ó­lík­legt að það verði ein­hverjar al­vöru raddir sem vilja breyta Bret­landi úr konungs­veldi í lýð­veldi en við getum sagt að á meðan það var kannski úti­lokað á meðan Elísa­bet var við völd, þá sé það bara afar ó­lík­legt á meðan Karl er við völd,“ segir Ólafur.