„Við getum ekki verið í einhverju viðskiptasambandi við guð og það á ekki að vera í samhengi heilags skírnarsakramentis,“ sagði séra Gunnlaugur Garðarsson á kirkjuþingi í gær þar sem rædd var tillaga um að afnema í áföngum gjöld vegna prestsþjónustu þjóðkirkjunnar.

Lögð var fram frávísunartillaga vegna tillögunnar. Vísaði séra Þuríður Björg Wiium Árnadóttir, einn flutningsmanna, til þess að kirkjuþing hefði samþykkti að kjaranefnd kirkjunnar færi með samningsumboð kirkjunnar við Prestafélag Íslands. Flutningsmenn frávísunartillögunnar teldu að aukaverkin væru inni í því umboði og um það væri til lögfræðiálit.

Séra Gunnlaugur sagði um að ræða gamalt mál sem oft hefði verið rætt.

„Ég fékk á aðalfundi Prestafélags Íslands samþykkta þá tillögu að stjórnin myndi taka á því í samráði við biskup Íslands að fella niður alla gjaldtöku í samhengi skírnar. Þetta var samþykkt,“ sagði Gunnlaugur.

„Og ég get líka upplýst ykkur um það að sá ofríkisandi ríkti í stjórninni að hún gerði ekkert með þessa aðalfundarsamþykkt allt til þessa dags,“ hélt Gunnlaugur áfram. „Ótrúlegustu menn stóðu upp í harkalegri vörn fyrir pyngju sinni.“

Lagði Gunnlaugur áherslu á að málið mætti vinna í þrepum yfir langan tíma. „Frávísunartillöguna upplifi ég aftur á móti sem tilraun til þess að jarða þetta. Og mér finnst hún þar af leiðandi bara óþolandi,“ sagði hann. Um væri að ræða verslun og viðskipti með náðina. „Ég segi það nú bara hreint út.“

Steindór Haraldsson, sem kvaðst hafa starfað við hlið presta um áratuga skeið og sem útfararstjóri í 25 ár, sagði frávísunartillöguna með ólíkindum.

„Þessi frávísunartillaga er ein ljótasta tillaga sem ég hef séð á kirkjuþingi síðan ég kom hérna inn 2010. Það er svo grímulaust farið að því að verja eigin fjárhagshagsmuni,“ sagði Steindór. „Að níu af tólf prestum á kirkjuþingi hafi ekki meiri sjálfsvirðingu en þetta, það kemur mér á óvart.“

Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu við HÍ, sagðist harma frávísunartillöguna sem væri með ólíkindum.

„Það er raunverulega til nýyrði í íslensku máli sem tekur á svona málflutningi – sem er séra-hagsmunagæsla,“ sagði Hjalti.

Séra Skúli Ólafsson sagðist skilja þau sjónarmið að Kirkjuþing væri ekki rétti vettvangurinn til að ræða kjaramál presta.

„Ég er svo eindreginn talsmaður þess að við víkjum frá þessu aukaverkakerfi að mér hugnaðist ekki að vísa því frá með svona frekar harkalegum hætti,“ sagði Skúli hins vegar.

„Fólki finnst pínulítið skrítið að vera borga fyrir það að vera að taka manneskju inn í samfélag kirkjunnar eða samfélag trúaðra,“ sagði Árný Hallfríður Herbertsdóttir kennari.

Séra Gísli Jónasson sagðist ekki geta orða bundist. Hann væri ekki með í frávísunartillögunni til að verja sína eigin hagsmuni.

„Því ég er hættur í þessum bransa og ég verð væntanlega með minn sjúkdóm kominn undir græna torfu áður en þessar reglur verða komnar á. Þannig að mér sárnar nú pínulítið, bara svona persónulega, þessi áburður. Ástæðan fyrir því að ég er á þessari tillögu er að ég tel að hún sé bara mjög truflandi og skemmandi fyrir það ferli sem er í gangi,“ útskýrði Gísli.