Norð­menn hófu í gær prófanir á lyfjum til með­ferðar við CO­VID-19 sjúk­dóminum sem kóróna­veiran getur valdið. Til­raunin er unnin af al­þjóða­heil­brigðis­stofnuninni í sam­starf við ýmsar þjóðir en Norð­menn urðu þeir fyrstu til að hefja prófanir á lyfjunum.


Fyrsti sjúk­lingurinn hóf með­ferðina í gær á Há­skóla­sjúkra­húsinu í Osló, að sögn Bent Høie, heil­brigðis­ráð­herra Nor­egs. Sjúkra­húsin sem munu taka þátt í til­rauninni í Noregi verða alls 22 talsins og verður öllum þeim sem eru sýktir af veirunni og eru eldri en 18 ára boðið að taka þátt.


Þrjú mis­munandi lyf verða prófuð og segir Høie að hér sé verið að sam­þætta rann­sóknir og lyfja­prófanir hvaða­næva að úr heiminum. Meðal lyfjanna sem verða prófuð eru lyf sem hafa verið notuð við ebólu og malaríu. Lyfið sem mestar vonir eru bundnar til er lyfið sem notað hefur verið við malaríu, Plaqu­enil.


„Rann­sóknin miðar að því að skapa grund­völl til að prófa nýjar lausnir sem koma upp á rann­sóknar­stofum um heim allan,“ segir John-Arne Røtt­in­gen, for­maður norska rann­­sókn­a­ráðsins í sam­tali við norska ríkis­út­varpið. „Þannig viljum við geta búið til með­ferðar­á­ætlanir út frá niður­stöðum þessara prófana.“

Mikið álag á kerfinu


Tæp­lega 3.600 smit kóróna­veirunnar hafa greinst í Noregi þar sem rúm­lega 78 þúsund sýni hafa verið tekin. 302 liggja á sjúkra­húsum í landinu með CO­VID-19 og þar af eru 81 á gjör­gæslu­deildum.


Heil­brigðis­ráð­herrann segir mikið álag á heil­brigðis­kerfinu í landinu þessa stundina og að hún verði það á­fram næstu vikurnar. „Til þess að hjálpa þeim sem þurfa mest á því að halda verðum við að ráðast í nokkrar breytingar á kerfinu,“ segir hann.

Ráðherrann segir markmiðið að vinna inn tíma til að prófa lyfin áfram.
Facebook

Mark­miðið í Noregi er nú að draga úr út­breiðslu veirunnar og tak­marka smit eins og hægt er. „Við munum reyna að draga úr á­lagi á heil­brigðis­þjónustuna,“ segir ráð­herrann og talar um að þeir sem eru smitaðir af veirunni en ekki al­var­lega gætu þurft að bíða tals­vert eftir með­ferð.


„Mark­mið okkar er þó líka að vinna okkur inn tíma svo að hægt sé að þróa á­fram bólu­efni og með­ferð við veirunni,“ segir hann að lokum.