Japönsk samgönguyfirvöld hafa hafið prófanir á háhraðalest sem allt stefnir í að verði sú hraðskreiðasta í heimi. Hún mun geta náð allt af 400 kílómetra hraða.

Lestin ber heitið ALFA-X og er sérstök útgáfa af hinni japönsku Shinkansen-lest. Prófanir á frumgerð lestarinnar munu taka þrjú ár og er talið að hún verði tekin í notkun einhverntímann árs 2030. Mun hún bera farþega á milli staða á 360 kílómetra hraða.

Hin kínverska Fuxing-lest er hraðskreiðasta lest heims í dag, og þótt hún nái fræðilega séð sama hámarkshraða og ALFA-X fer hún vanalega ekki hraðar en 350 kílómetra á klukkustund.

Lestin er málmgrá á lit og með sérstaklega langt nef, sem á að minnka loftstreymi um lestina til muna.

Þrátt fyrir að ALFA-X muni ná svimandi háum hraða kemst hún ekki í hálfkvisti við hina japönsku „maglev“ lest, en hún svífur í lausu lofti yfir teinunum. Notast er við rafsegulbylgjur til að lyfta lestinni, og nær sú lest allt að 600 kílómetra hraða. ALFA-X verður því aðeins hraðskreiðasta teina-lest heims.