Pétur Oddbergur Heimisson og Erin Jade Turner standa fyrir prjónakvöldi á KEX næsta miðvikudagskvöld þar sem prjóna á litla poka fyrir áströlsk pokadýr sem berjast nú fyrir lífi sínu vegna skógareldanna þar í landi. Meira en 500 milljón dýr hafa látist í þeim miklu skógareldum sem geisa þar.
„Það er Erin, sem er áströlsk, sem fær þessa hugmynd og kemur til mín því að ég er búinn að vera skipuleggja þessi prjónakvöld á KEX,“ segir Pétur í samtali við Fréttablaðið. Það voru dýraverndunarsamtök í Ástralíu sem óskuðu upprunalega eftir aðstoð fólks við að fá poka fyrir dýrin. „Erin er hluti af Facebook-hópi þar sem er verið að biðja um þetta,“ segir hann.

„Þetta er fyrir pokadýr, eins og litlar kengúrur sem vantar móðurkviðinn. Foreldrarnir hafa kannski dáið í eldsvoðunum. Þannig að hugmyndin er sú að það er verið að prjóna poka sem dýrin eru sett í,“ segir Pétur þegar hann er spurður hvernig pokarnir verði notaðir.
Býst við góðri mætingu
Það er þó ekki þannig að dýrin verði sett í lopapokann einan heldur verður saumaður bómull inn í þá þegar þeir eru komnir til. „Erin fer til Ástralíu í febrúar og mun koma þeim til skila,“ segir Pétur en ef magnið verður slíkt að Erin getur ekki ferðast sjálf með pokana verður leitast eftir að senda pokana á annan hátt.

Hann býst við góðri mætingu á prjónakvöldið og segist finna fyrir miklum áhuga. „Ég held það sé alveg slatti. En svo er ég búinn að fá einkaskilaboð frá fólki sem kemst ekki á miðvikudaginn og er að spyrja hvort að það geti komið pokunum til okkar.“ Þeir sem ekki sjá sér fært að mæta á miðvikudaginn geta komið pokum til skila á Kex milli klukkan 10 og 20 þann þriðja febrúar.
Pétur segir að prjónað verði eftir einni uppskrift, í tveimur stærðum. „Við hugsum um að hafa þetta bara sem einfaldast.“ Aðspurður segir hann að vanur prjónari væri líklega örfáa klukkutíma að prjóna einn poka, „jafnvel bara tvo þrjá.“ Magnið skiptir hann hins vegar ekki öllu máli, þó að hann myndi vilja fá sem mest. „Þó að við myndum bara fá fimm poka, þá er það alla vega eitthvað.“