Talsmaður Bretaprinsins Andrew neitar að tjá sig um nýjar upplýsingar sem benda til þess að prinsinn hafi verið heima hjá milljarðamæringnum Jeffrey Epstein í apríl 2001. Prinsinn hefur áður þvertekið fyrir það í viðtölum vegna málsins en neitar því nú ekki, þegar talsmaður hans er spurður.
Tilefnið er umfjöllun breska götublaðsins Daily Mail þar sem hulunni er svipt af faxi auk upplýsinga um ferðaáætlanir prinsins þar sem kemur fram að prinsinn hafi gist í húsi með „tiltekið heimilisfang í New York“ þann 11. apríl 2001. Þá staðfesta heimildarmenn miðilsins að um sé að ræða heimili Epstein í Upper East Side hverfinu.
Um er að ræða stað og tímann þar sem Virginia Guiffre, sem var sautján ára gömul á þeim tíma, hefur sagt að prinsinn hafi brotið á henni kynferðislega. Epstein var handtekinn í júlí á síðasta ári vegna gruns um mansal, misnotkun á börnum og vörslu á barnaklámi. Hann fannst síðar látinn í fangaklefa sínum í ágúst 2019.
Prinsinn hefur alla tíð þvertekið fyrir það að hafa verið í New York á þessum tíma, líkt og fram kemur í umfjöllun Guardian um málið. Þar er haft eftir talsmanni prinsins að hann muni ekkert tjá sig um umfjöllun breska götublaðsins. Enn fremur vill talsmaðurinn ekki gefa upp hvort prinsinn hyggi á málaferli gegn miðlinum.
Ferðaáætlanir segja mismunandi sögu
Í umfjöllun breska götublaðsins er einnig greint frá ferðaáætlunum prinsins frá umræddum tíma. Þar kemur það fram að í þriggja daga heimsókn sinni til Bandaríkjanna hafi prinsinn tekið frá þrjá tíma fyrir „persónulegan tíma“ þann 11. apríl árið 2001.
Í umfjöllun götublaðsins kemur hinsvegar einnig fram að Virginia Guiffre, Jeffrey Epsten og vinkona hans Ghislaine Maxwell, hafi ferðast frá Teterboro í New Jersey til St. Thomas í Karabíska hafinu þann 11. apríl, sem stingur í stúf við frásögn Roberts, líkt og fram kemur í Guardian.
Kemur fram í umfjöllun miðilsins að talsmaður prinsins neiti ekki fyrirspurn miðilsins, þess efnis um það hvort hann hafi verið í húsi Epstein þann 11. apríl 2001. „Þið getið skrifað það sem þið viljið. Það eru engin viðbrögð,“ segir hún (e. no comment).