Prikið Kaffihús hefur undanfarnar vikur haldið viðburði og tónleika í glugga sínum á Bankastræti. Það vakti nokkra athygli síðasta laugardag þegar nokkuð stór hópur fólks myndaðist fyrir utan Prikið þegar tónlistarmaðurinn Auður spilaði í glugga Priksins. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að hann hefði áhyggjur af þeim fjölda sem kom þarna saman.
Prikið sendi í dag frá sér tilkynningu um að framvegis yrðu viðburðirnir ekki haldnir í glugga staðarins til að óhóflega stórir áhorfendahópar mynduðust ekki fyrir utan. Viðburðunum hefur hingað til einnig verið streymt á netinu og segist Prikið framvegis aðeins ætla að streyma þeim.
Í samráði við Reykjavíkurborg
„Prikið er auðvitað lokað fyrir gestum, en okkur finnst mikilvægt eins og svo mörgum öðrum, að hafa eitthvað líf í glugganum, hafa ljósin kveikt og skapa einhverja vinnu fyrir okkar góða listafólk og plötusnúða,“ sagði staðurinn í tilkynningu.
„Síðasta laugardag var okkar góði vinur Auður með tónleika í glugganum og hann er auðvitað einn af vinsælustu tónlistarmönnum landsins. Áhugi fyrir flutningi hans er eitthvað sem við hefðum átt að sjá fyrir, og myndaðist hópur fyrir utan staðinn í þær 25 mínútur er hann spilaði. Í ljósi þess hvernig fór á laugardaginn höfum við ákveðið leggja höfuðáherslu á streymi frá þeim viðburðum sem búið er að skipuleggja fram að jólum.“
Af þeim ástæðum ætlar Prikið að draga gluggatjöldin fyrir þegar næstu tónleikar verða haldnir en landsmenn geta notið hans á netinu í staðinn. „Listamennirnir fá að sinna sinni vinnu, og við hin að njóta hennar. Þetta er gert í góðu samráði við Reykjavíkurborg sem hefur verið í samtali við sóttvarnalækni um málið.“
Tilkynning: Undanfarnar vikur höfum við á Prikinu verið með allskonar skemmtilega viðburði í glugganum okkar sem hefur...
Posted by Prikið Kaffihús on Monday, 14 December 2020