Presturinn Thomas Gott­hard hefur nú verið dæmdur í 15 ára fangelsi fyrir að hafa myrt eigin­konu sína, Maria From Jakob­sen, í fyrra en hinn 45 ára gamli Gott­hard játaði sök í gær. Hann hafði áður neitað sök en eigin­kona hans sást síðast þann 26. októ­ber í fyrra í Nord­sjælland í Dan­mörku.

Annetta Wedell Seerup, sak­sóknarinn í málinu, las upp yfir­lýsingu Gott­hard í gær en þar kom fram að hann hafi skipu­lagt morðið í viku og meðal annars gert minnis­lista um hvað hann ætti að gera við hana. „Það er hræði­legt að segja en þetta varð að eins konar á­huga­máli,“ sagði Seerup en hún vísaði til þess að Gott­hard hafi átt í ástar­sam­bandi við aðra konu og því þyrfti hann að losna við Mariu.

Ekki dapurleg ástarsaga

„Þetta er ekki dapur­leg ástar­saga um mann sem skildi við eigin­konu sína því hann gat ekki nælt sér í konuna sem hann elskaði. Þetta er saga um mann sem myrti Mariu From Jakob­sen á kald­rifjaðan hátt. Um mann sem fór frá því að verða eigin­maður í að verða morðingi,“ sagði Seerup.

Að því er kemur fram í frétt DR um málið greindi Gott­hard frá því að hann hafði bútað í sundur lík eigin­konu sinnar en hann hafði ætlað að halda því fram að hún hefði yfir­gefið hann eftir að hann hafði losað sig við líkið. Þremur vikum eftir hvarf hennar var Gott­hard hand­tekinn og hefur hann verið í haldi síðan.

Á­kæra gegn Gott­hard var loks lögð fram síðast­liðinn apríl og stóð til að réttar­höldin myndu hefjast í októ­ber næst­komandi. Síðast­liðinn júní fundust loks líkams­leifar Mariu og játaði Gott­hard sök við lög­reglu. Að sögn Gott­hard vildi hann veita fjöl­skyldu hennar hugar­ró og leyfa þeim að halda á­fram með þeirra líf.

Fékk hugmynd út frá Breaking Bad

Líkt og áður segir hvarf Maria From Jakob­sen í októ­ber í fyrra en við hús­leit á heimili þeirra fannst tals­vert magn af vítis­sóda og salt­sýru. Í tölvu á heimilinu mátti enn fremur finna leitar­niður­stöður um „sjávar­dýpt,“ „olíu­tunnur,“ „sjálfs­víg,“ „manns­hvarf“ og „hrein­gerningar­vörur.“

Hann játaði að hafa lamið Mariu í höfuðið með stein þann 26. októ­ber 2020 og í kjöl­farið haldið fyrir nef hennar og munn þannig að hún kafnaði. Hann faldi síðan lík hennar í skúr við heimili þeirra og fór því næst með líkið á yfir­gefið svæði þar sem hann hellti sýru og víta­sóda yfir líkið.

Í gær var síðan greint frá því að Gott­hard hafi minnst þess að hafa horft á þátt af Breaking Bad þar sem lík var leyst upp í sýru og í kjöl­farið keypti hann 208 lítra tunnu sem hann ætlaði að setja lík eigin­konu sinnar í og leysa upp með ætandi sýru.

Það hafi hins vegar ekki gengið eins og hann ætlaðist til og því hafi hann á­kveðið að grafa hana. Hann hafi þó orðið stressaður um að líkið myndi finnast þannig hann gróf hana aftur upp, bútaði líkið í sundur og brenndi það.