Kaþólskur prestur hefur verið hand­tekinn á Ítalíu en hann er sakaður um að hafa dregið sér fé úr kirkju­sjóði til að fjár­magna vímu­efna­kaup fyrir kyn­svall. Hinn 40 ára gamli Francesco Spagnesi var mikils metinn prestur í borginni Prato í Toskana en er nú í stofu­fangelsi meðan mál hans er rann­sakað.

Lög­regla hefur rætt við um 200 manns sem munu hafa sótt kyn­svall á hans vegum á síðustu tveimur árum. Spagnesi var gripinn eftir á­bendingu um að hann og her­bergis­fé­lagi hans hefðu flutt inn lítra af lyfinu GHB, sem oft er notað til að eitra fyrir þol­endum nauðgana sam­kvæmt heimildum breska dag­blaðsins Times.

Mennirnir munu hafa nýtt sér stefnu­móta­síður til að finna karl­menn til að bjóða til sín, þar sem vímu­efni gengu kaupum og sölum. Við hús­leit fundust á­höld sem talið er að hafi verið notuð til að reykja krakk.

Spagnesi sagði sig úr lækna­námi og gerðist prestur 26 ára gamall. Það vakti grun­semdir er endur­skoðandi kirkju hans kom auga á að hann hefði tekið 15 milljónir út af reikningi hennar. Biskup steig þá inn í og lokaði fyrir að­gang hans að reikningnum. Lög­regla telur að féð hafi verið nýtt í að fjár­magna vímu­efna­kaup og standa undir kostnaði við kyn­svallið.

Séð yfir borgina Prato.
Mynd/Flickr

Þegar Spagnesi áttaði sig á því að hann gæti ekki lengur sótt fé í kirkju­­sjóði brá hann á það ráð að taka peninga úr söfnunar­baukum kirkjunnar. Hann blekkti auk þess sóknar­börn sín, sagðist vera að safna pening fyrir fá­tækar fjöl­­skyldur en nýtti hann til að fjár­­magna hegðun sína.

Sóknar­börn hans hafa nú kært Spagnesi til að endur­heimta fjár­muni sína og tvær kærur um fjár­svik hafa verið lagðar fram.

Fastur í „hyl­dýpi kókaíns“

Sam­kvæmt ítalska dag­blaðinu Corriera Della Sera kennir Spagnesi „hyl­dýpi kókaíns“ um gjörðir sínar og segist vera HIV-smitaður.

„Ég þekki ekki sjálfan mig lengur, hyl­dýpi kókaíns hefur gleypt mig. Vímu­efnið fékk mig til að svíkja sóknar­börn mín, lét mig ljúga, lét mig gera hluti sem ég skammast mín nú fyrir. Nú er ég HIV-smitaður,“ sagði Spagnesi með tárin í augunum við lög­menn sína.

Hann segist vera á lyfjum til að hindra að hann smitaði aðra af sjúk­dómnum og lofar að endur­greiða allt það fé sem hann stal. Til þess muni hann selja allar verald­legar eigur sínar.

„Ég bið alla um fyrir­gefningu,“ segir presturinn.