Sonur prestsins í Laufási við Eyjafjörð fékk nafnlaust bréf í pósti þar sem honum var sagt að drepa sig.

Séra Gunnar Einar Steingrímsson, prestur í Laufásprestakalli, vekur athygli á bréfinu og segir að svona einelti eigi aldrei að viðgangast. Gunnar birti bréfið á Facebook og segir mikilvægt skila skömminni með opinni umræðu.

Skila skömminni

„Skömmin er ekki hans og ekki okkar. Við skilum henni því til baka með því að birta bréfið,“ segir Gunnar í samtali við Fréttablaðið. Bréfið barst inn um lúguna nafnlaust en þar er Steingrími Inga, syni Gunnars, líkt við apa og honum sagt að fara úr bænum og drepa sig.

Gunnar segist hafa orðið reiður við að sjá bréfið en sonur hans, Steingrímur Ingi, 19 ára, sagði sjálfur „mikið hlýtur viðkomandi aðila að líða illa”. Hann lætur þetta ekki á sig fá og segir þetta fyrsta aðdáandabréfið sem hann hefur fengið.

Gunnar segir mikilvægt að þessum aðila bjóðist hjálp við að vinna úr vanlíðan sinni.

„Öll mætum við mótlæti í lífinu og við þurfum að læra að takast á við það, læra að greina tilfinningar okkar og læra að beina þeim í réttan farveg,“ segir Gunnar.

Steingrímur Ingi er mikill fótboltagarpur og æfir og spilar nú þegar í tveimur fóboltaliðum.
Mynd:Aðsend

Flutti til landsins í fárviðri og festist í faraldrinum

Fjölskyldan býr í Laufási í Eyjafirði á en Gunnar flutti til landsins frá Noregi ásamt tveimur yngri börnum sínum í janúar þegar fárviðri gekk yfir landið. Steingrímur kom svo til landsins í mars og ætlaði upphaflega bara að koma í heimsókn þar sem hann er í skóla í Noregi. Hann komst þó ekki til baka vegna kórónaveirufaraldursins og kláraði því skólann á netinu.

Eiginkona Gunnars, Erla Valdís Jónsdóttir, kom svo í lok maí og var þá fjölskyldan loksins sameinuð á ný.

„Við er um nýflutt hingað. Kona mín er frá Grenivík og ég er sjálfur frá Akureyri svo við erum með gott tengslanet og erum alveg sallarólega. En auðvitað er þetta leiðinlegt; að vera nýflutt aftur og lenda í einhverju svona,“ segir Gunnar í samtali við Fréttablaðið.

Fjölskyldan ætlar ekki að kæra aðilann en Gunnar ætlar þó að ræða við lögregluna á morgun. Nokkuð auðvelt sé að rekja bréfið enda hefur sonur hans verið á landinu í svo stuttan tíma.

„Mín fyrsta hugsun var að birta þetta bréf og skila skömminni til baka. Þetta á ekki að viðgangast. Við viljum ekki benda á viðkomandi heldur vonum við bara að hann eða hún fái hjálp.“

Laufás í Grýtubakkahreppi er kirkjustaður og prestsetur í Þingeyjarsýslu.
Mynd: Aðsend