„Það er sláandi hve margir prestar tengjast þessu máli án þess að brugðist hafi verið við,“ segir Steinar Immanúel Sörensson, þolandi eftir dvöl á barnaheimilinu Hjalteyri.

Hann fagnar því skrefi að Jón Gunnarsson innanríkisráðherra hafi skipað starfshóp til að afla gagna og upplýsinga um Hjalteyrarheimilið. Starfshópnum er ætlað að ákveða með hvaða hætti starfsemin verði tekin til rannsóknar og hver aðkoma sveitarfélaga skuli vera.

Mun ræða þöggun

Gera má ráð fyrir að öll núlifandi börn á heimilinu verði kölluð fyrir sem vitni. Steinar reiknar með að hann fái tækifæri til að ræða hvort ofbeldið á Hjalteyri hafi verið þaggað niður á sama tíma og mál voru gerð upp á öðrum barnaheimilum. Í frétt Fréttablaðsins á dögunum sagðist Steinar hafa heimildir frá lögmanni um að málið hafi verið þaggað niður til að hlífa þjóðþekktri opinberri persónu.

Aðeins ein leið fær

„Ég held að starfshópurinn geti ekki komist að annarri niðurstöðu en að ríkið biðjist afsökunar og að við fáum sanngirnisbætur,“ segir Steinar.

Honum sýnist sem ríkið beri mesta ábyrgð en ábyrgð kirkjunnar sé einnig mikil.