Stjórn Prestafélags Íslands hyggst boða til auka aðalfundar félagsins þann 21. nóvember næstkomandi svo hægt sé að kjósa nýjan formann.

Þetta staðfestir séra Eva Björk Valdimarsdóttir í samtali við Fréttablaðið. Hún hyggst ekki bjóða sig fram til formanns sjálf en bindur vonir um að einhver vilji leiða félagið.

Mikið hefur gengið á innan Prestafélagsins undanfarin misseri en formaður félagsins, Arnaldur Bárðarson, sagði af sér formennsku í síðustu viku auk þess að segja sig úr félaginu.

Félag prestvígðra kvenna hafði krafist afsagnar hans í kjölfar viðtals sem Arnaldur fór í á Útvarpi Sögu.

Arnaldur sætti mikilli gagnrýni vegna viðtalsins en þar tjáði hann sig meðal annars um mál séra Gunnar Sigurjónssonar og rannsókn óháða teymisins á því. Það gerði hann áður en skýrsla teymisins, sem hafði rann­sakað mál Gunnars í marga mánuði, var gerð opin­ber.

Aðspurður hvort ástæðu afsagnarinnar mætti rekja til ummæla hans í þættinum svaraði Arnaldur játandi en sagði Prestafélagið ekki heldur vera í standi til að gæta hagsmuna hans í samtali við Fréttablaðið í síðustu viku.

Arnaldur sagði hagsmunum sínum betur borgið í stærra stéttarfélagi og segir Eva Björk að það sé eitthvað verði skoðið gaumgæfilega. „Fyrst þurfum við að kjósa okkur formann og reyna að fá frið í Prestafélaginu og svo eftir það er kominn tími til að skoða þetta. Hvort hagsmunum okkar sé betur borgið í meira samstarfi við BHM. Það er eitthvað sem við þurfum að skoða og kanna hug félagsmanna.“

Eva Björk segist aðspurð málið ekki hafa verið rætt á stjórnarfundinum í síðustu viku. „Við vorum sammála um að fyrst væri kominn tími til að græða sár og ganga til fundar og kjósa nýjan formann. Svo er þetta eitthvað sem við skoðum bara í framhaldinu.“