Darrell Me­ekcom, 55 ára Eng­lendingur bú­settur í Kidd­ermin­ster, var skellt í jörðina og hand­járnaður af nokkrum lög­reglu­mönnum á dögunum. Me­ekcom er ó­sáttur og segir lög­reglu hafa beitt ó­þarf­lega mikilli hörku við hand­tökuna.

Me­ekcom greindist fyrir skemmstu með ó­læknandi sjúk­dóm og setti af því til­efni saman svo­kallaðan „bucket-lista“, lista yfir það sem honum þykir nauð­syn­legt að gera áður en hann kveður.

Í frétt BBC kemur fram að eitt af því sem Me­ekcom taldi nauð­syn­legt að gera var að girða niður um sig og beina aftur­endanum að hraða­mynda­vél við bæinn sem stundum hefur leikið hann grátt. Lét hann vaða síðast­liðinn föstu­dag en síð­degis sama dag komu lög­reglu­menn í heim­sókn til hans og hand­tóku hann.

Í sam­tali við BBC segir Me­ekcom að hraða­mynda­vélin hafi farið mjög í taugarnar á honum, enda oftar en ekki náð honum rétt yfir há­marks­hraða. „Ég spáði ekkert í af­leiðingarnar og fannst þetta bara fyndið,“ segir Me­ekcom sem er tveggja barna faðir og notast við hjóla­stól.

Sem fyrr segir komu sex lög­reglu­menn að heimili hans seinna sama dag og var hann kærður fyrir að bera sig á al­manna­færi og fyrir ó­gæti­legt aksturs­lag.

Me­ekcom segir að af­skipti lög­reglu séu eitt en við­brögðin og harkan sem hann mátti þola sé annað. Þannig hafi hann til­kynnt lög­reglu­mönnum að hann væri dauð­vona og ekki sýnt neina mót­spyrnu við hand­tökuna. Þrátt fyrir það hafi þeir skellt honum í jörðina og þrýst á hann með þeim af­leiðingum að hann átti erfitt með að anda. Þá kveðst hann hafa fengið högg á höfuðið við hand­tökuna.

BBC hefur eftir lög­reglu­stjóranum Mark Colqu­houn að lög­reglu­menn hafi brugðist rétt við og ekki sé grunur um að þeir hafi beitt Me­ekcom of mikilli hörku.