Síðustu daga hefur nokkuð borið á vafasömum SMS-sendingum frá kortasvindlurum. SMS-in eru titluð „important“ og látin líta út fyrir að vera frá Póstinum.

Kristín Inga Jónsdóttir, forstöðumaður markaðsdeildar hjá Póstinum, segir að fyrirtækið fari í herferð á næstunni varðandi netöryggi notenda.

„Það er verið að stela traustum vörumerkjum til að svíkja persónuupplýsingar út úr neytendum,“ segir hún.

SMS-svindlið felur í sér skilaboð þess efnis að viðtakandi eigi ósótta sendingu sem hann þurfi að greiða fyrir.

Líklegt er að ófáir Íslendingar eigi von á sendingum frá vefverslunum þessa dagana, og því full ástæða til að hafa varann á.

Þeir neytendur sem lent hafa í svindli af þessu tagi geta þó ekki snúið sér til Póstsins heldur eiga slík mál erindi beint á borð lögreglu.

„Við beinum öllum viðskiptavinum beint til lögreglunnar, ef viðkomandi hefur gefið upp persónu- eða kortaupplýsingar á varasömum síðum.“