Póstdreifing, sem sér um dreifingu á Fréttablaðinu og Morgunblaðinu, hefur sagt upp öllum 304 blaðberum sínum.

RÚV greindi fyrst frá þessu en Kristín Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Póstdreifingar, staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið.

Að sögn Kristínar verða flestir blaðberar fyrirtækisins ráðnir aftur með breyttu vinnufyrirkomulagi og starfshlutfalli.

Þörf sé á því að endurskipuleggja dreifikerfi Póstdreifingar vegna breytinga á verkefnum fyrirtækisins undanfarna mánuði.

„Við getum ekki gert það öðruvísi en að segja upp ráðningarfyrirkomulagi blaðbera.“

Kristín segir að einhver samdráttur hafi verið í magni þess efnis sem fyrirtækið beri út en það sér einnig um dreifingu smærri blaða og auglýsingaefnis.

Uppsagnirnar taka gildi frá og með morgundeginum, 1. ágúst. Þrátt fyrir það er gert ráð fyrir að útburður haldi áfram með eðlilegum hætti.

„Við búumst ekki við því að hagræðingaraðgerðir hjá Póstdreifingu muni raska útburði Fréttablaðsins,“ segir Jóhanna Helga Viðarsdóttir, forstjóri Torgs, útgefanda Fréttablaðsins.

Póstdreifing er í sameiginlegri eigu Torgs og Árvakurs, útgefanda Morgunblaðsins.