Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna sem einnig titlar sig sem smala í símaskránni, hefur ítrekað valdið undrun og hneykslun hjá hluta aðstandenda vistmanna á öldrunarheimilum tölvupóstum. Þetta staðhæfir aðstandandi vistmanns. Gísli ætlar ekki að breyta neinu.

Fréttablaðið hefur afrit af tölvupóstum Gísla. Oft er fjallað um pólitísk mál og deilt á ríkið þannig að ekki blasir við að eigi erindi við aðstandendur vistmanna.

Fyrsta apríl í vor skrifaði Gísli um rekstur hjúkrunarheimila til næstu þriggja ára. Um skipan nefndar um húsnæðismál skrifar hann:

„Þetta er í raun óþolandi en þegar viðsemjandinn er bara einn þá getur maður því miður ekki annað en kyngt þessu svona. Það er eitthvað bogið við það, að það þurfi að ræða sérstaklega í nefnd hvort og þá hversu mikið eigi að greiða fyrir notkun á húsnæði hjúkrunarheimila landsins, sem við leggjum ríkinu til við rekstur öldrunarþjónustunnar. Af hverju ræðum við ekki þá sérstaklega hvort og þá hversu mikið eigi að greiða fyrir þann mat sem við veitum okkar heimilismönnum? Eða lyf?“

Annar póstur sem vakið hefur spurningar er sá sem Gísli skrifaði að loknum nýliðnum sveitarstjórnarkosningum. Þar kemur fram að D-listinn í Hveragerði hafi tapað helmingi bæjarfulltrúa og hreinum meirihluta síðastliðinna 16 ára. „Fengum tvo af sjö. Eins og síðastliðnar fimm kosningabaráttur, frá árinu 2002, var ég kosningastjóri þessa flotta fólks nú í vor sem bauð fram krafta sína til að stýra bænum. Á sunnudeginum var ég aðeins beygður.“

Sonur foreldris á Grund segist ítrekað hafa orðið miður sín vegna póstanna. Sérstaklega er tíundað sé hve stjórnvöld standi sig illa. Það veki áhyggjur um velferð vistmanna.

Sonurinn segir að foreldri hans borgi tæpa hálfa milljón á mánuði fyrir herbergi. Örþreytt starfsfólk starfi langt umfram skyldur.

„Svo skreytir Gísli sjálfur elliheimilin með myndum af safaríferðum hans sjálfs í Afríku,“ segir sonurinn.

Gísli kannast við að nokkrir hafi beðið um að vera teknir út af lista viðtakenda tölvupóstanna. Hann segir kvartanir þó fremur fátíðar.

„Þetta eru mínar pælingar almennt og ekki allt í póstunum sem tengist öldrunarþjónustu. Ef fólki líka ekki póstarnir á það bara ekki að lesa þá eða eyða þeim,“ segir Gísli.

Eigi að síður má skilja af orðum aðstandenda að stundum eigi póstarnir erindi við aðstandendur sem flækir málið nokkuð.

„Ég skil sjónarmið fólksins, en ég ætla ekki að hætta að skrifa þessa pistla,“ segir Gísli sem kveður viðtakendur vera starfsfólk, aðstandendur og vini og kunningja

„Ég er fyrst og fremst að reyna að vera persónulegur forstjóri, segir Gísli,“ sem veitir þremur Grundarheimilum forstöðu.