Portúgalar flytja seinast allra íbúa Evrópusambandsins frá foreldrum sínum, að meðaltali 33,6 ára að aldri. Þar á eftir koma Króatar, Serbar, Slóvakar og Grikkir. Þetta kemur fram í nýjum tölum Euro­stat, tölfræðistofnunar Evrópusambandsins.

Athygli vekur að Ítalir eru aðeins í sjöunda sæti sem rímar ekki vel við staðalmyndina. Ítalir eru að meðaltali innan við þrítugt þegar þeir flytja að heiman.

Ekki liggja fyrir tölur um Ísland en almennt séð flytja Norðurlandabúar snemma að heiman. Svíar flytja yngstir út, aðeins 19 ára gamlir, en Finnar og Danir 21 árs. Meðaltal Evrópusambandsins alls er 26,5 ár.

Karlmenn dvelja mun lengur í foreldrahúsum en konur. Í heildina er munurinn nærri tvö ár. Yngstar flytja sænskar konur út, 18,8 ára, en lengst dvelja króatískir karlar í foreldrahúsum, til 34,9 ára aldurs.