Það er lýsandi fyrir tækniþróunina í bílaiðnaðinum að af þeim 24 bílum sem komust í úrslit á þessu ári, eru meira en helmingur með kapaltengingu, ýmist tengiltvinnbílar eða 100% rafbílar. Porsche Taycan sem tilheyrir síðari flokknum gerir sér lítið fyrir og sigrar tvöfalt í ár, í flokkunum fallegasti bíllinn og sportbíll ársins. "Það kom vafalaust fáum á óvart að hann skyldi landa Gullna stýrinu sem fallegasti bíll ársins, en með því að hljóta verðlaunin sem sportbíll ársins er ljóst að Porsche hefur tekist hið ótrúlega; að rafvæða aksturseiginleika Porsche sportbílsins og hafa þar með betur á því sviði sem erfiðasta samkeppni bílaiðnaðarins er háð í dag" segir í fréttatilkynningu frá Bílabúð Benna, þar sem kynna má sér þennan bíl betur.