Frumsýning Porsche á fyrsta rafmagnaða sportbílnum sínum, Taycan, var að margra mati senuþjófur bílasýningarinnar í Frankfurt. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd var stór hluti sýningargesta saman kominn á bás Porsche, þannig að afhjúpun bílsins líktist meira rokkhátíð en hefðbundinni bílasýningu, slíkar voru viðtökurnar. Að sögn forsvarsmanna Porsche var yfirlýst markmið þeirra við þróun Taycan að koma með 100% rafmagnsbíl með eiginleikum sem sköruðu fram úr öllum þeim sem voru í boði á markaðnum.

Að sögn Thomasar Gregers, sölustjóra Porsche á Íslandi, er Taycan sönnun þess að Porsche DNA-ið hefur verið tekið inn á nýja rafmagnaða braut, sem byggir á einstakri tækni. Hann segir viðtökurnar á heimsvísu hafi farið fram úr öllum plönum framleiðenda, en nýlega opnaði Porsche á Íslandi fyrir þann möguleika að forpanta Taycan til Íslands. Thomas: „Bílablaðamenn hafa hrósað Taycan í hástert og hann hlaut rokkstjörnumóttökur á bílasýningunni í Frankfurt nýlega. Við höfum fengið mjög góð viðbrögð við honum og eru fjölmargar forpantanir komnar í vinnslu hjá okkur,“ segir Thomas. „Það vekur sérstaka athygli okkar hvað Taycan hefur breiða skýrskotun á markaðnum og því eru þeir, sem hafa skráð sig fyrir Porsche Taycan hingað til, ekki endilega úr hópi fyrri viðskiptavina okkar.“