Porsche mun kynna til leiks sinn fyrsta hreinræktaða rafmagnsbíl í formi Taycan bílsins næsta september. Um ári síðan verður svo komið að fyrsta rafmagnsjepplingi Porsche sem byggja mun að mestu á Taycan bílnum og fær nafnið Taycan Cross Turismo. Í upphaflegum áætlunum Porsche var meiningin að kynna þennan bíl ekki fyrr en árið 2022, en svo virðist sem Porsche liggi á, vafalaust vegna komandi samkeppnisbíla sem eru á leiðinni. Næsta kynslóð Macan jepplingsins verður svo einnig í boði sem hreinræktaður rafmagnsbíll. 

Porsche gerir ráð fyrir að helmingur þeirra bíla sem fyrirtækið mun selja árið 2025 verði rafmagnsbílar eða tengiltvinnbílar. Svo hefur einnig heyrst að Porsche hyggi á að rafmagnsvæða Boxster bílinn og þá væntanlega Cayman líka, en báðir þessir bílar bera nú stafina 718. Starfsmannafjöldi hjá Porsche hefur meira en tvöfaldast á síðustu 7 árum og rafmagnsvæðing bíla Porsche krefst enn meiri fjölgunar. Aukningin bara við að bæta Taycan rafmagnsbílnum við bílaflóru Porsche hefur skapað 1.500 ný störf.