Það verður seint tekið af Porsche Cayenne Turbo að hann sé ekki sportlegur jeppi með sín 541 hestöfl undir húddinu og bíll sem tekur sprettinn í hundraðið á litlum 3,7 sekúndum. Porsche hefur engu að síður komið fram með enn sportlegri Coupe útgáfu af bílnum með afturhallandi þaklínu en sama vélarúrval. Þessi aðferð er þekkt á meðal þýsku lúxusbílaframleiðandanna BMW, Mercedes Benz og Audi, en BMW X6, Mercedes Benz GLE Coupe og Audi Q8 eru einmitt þannig jeppar. Því á þessi nýja útgáfa Cayenne Coupe að keppa við einmitt þá bíla. 

Glerþakið á þessum Cayenne Coupe bíl er risastórt, eða 2,16 fermetrar svo bjart ætti að vera inní bílnum. Í boði eru tvær vélar, 3,0 lítra og 6 strokka 335 hestafla vél og 4,0 lítra V8 vél með tveimur forþjöppum sem skilar 541 hestafli. Bíllinn kemur til sölu í maí en hægt er að leggja inn pantanir nú þegar. Í Þýskalandi kostar hann frá 83.711 evrum, en Coupe Turbo kostar 146.662 evrur. Bílarnir eru nokkru ódýrari í Bandaríkjunum og kostar ódýrari gerðin þar 73.500 dollara og sú dýrari 130.500 dollara.