Vitað hefur verið lengi að Porsche vinni að Coupe útfærlsu á Cayenne jeppa sínum og nú er orðið ljóst að hann kemur á markað í haust og verður kynntur almenningi seint í þessum mánuði. Sést hefur til prófana á bílnum undnafarna mánuði, meðal annars á Nürburgring brautinni þýsku. Þessum Cayenne Coupe er teflt fram gegn öðrum Coupe lúxusjeppum eins og BMW X6 og Mercedes GLE Coupé og mun örugglega auka vel við heildarsölu Cayenne, sem er næst söluhæsti bíll Porsche á eftir Macan jepplingnum. Cayenne Coupe er með vindkljúf að aftan sem kemur upp rafrænt við ákveðinn hraða og þrýstir bílnum niður að aftan þegar þess er mest þörf. 

Porsche skilgreinir þessa sportlegu gerð Cayenne sem kraftagerð og það sést á vélarúrvalinu sem samanstendur af bæði 440 hestafla og 2,9 lítra V6 vél og 550 hestafla og 4,0 lítra V8, báðum bensínvélum. Cayenne Coupe verður smíðaður í verksmiðju Porsche í Leipzig í Þýskalandi. Vænta má þess að hægt verði að panta eintak af þessari nýju gerð Cayenne jeppans hjá Bílabúð Benna á þessu ári.