Ekki einu sinni hinn goðsagnarkenndi Porsche 911 sportbíll sleppur við rafmagnsmótora í framtíðinni. Porsche vinnur nú að smíði 911 bíls sem styðst við rafmagnsmótora til aðstoðar brunavél bílsins. Porsche ætlar að velja sér þá leiða að láta 911 Hybrid verða mjög öfluga gerð og gæti hann orðið allt að 700 hestöfl og verður hann með því öflugasta gerð sem framleidd yrði af bílnum, ásamt 911 GT2 RS, en hann er einnig 700 hestöfl. Porsche Panamera Turbo S E-Hybrid er 680 hestöfl og er nú næst öflugasti framleiðslubíll Porsche. Brunavélin í Porsche 911 Hybrid verður 6 strokka bensínvél með tveimur forþjöppum, líkt og í Porsche Panamera Turbo S E-Hybrid. 

Porsche vinnur nú að nýrri kynslóð 911 bílsins og er von á honum á markað seinna á þessu ári og gæti hann verið sýndur á bílasýningunni í París í október. Það þýðir ekki að Hybrid útfærsla hans verði tilbúin þá, heldur líklega tveimur árum síðar. Porsche virðist þó liggja meira á með útkomu bílsins en fyrr þar sem fyrri fréttir frá herbúðum Porsche sögðu til um útkomu hans árið 2023. Það gæti því orðið strax árið 2020.