Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, er óánægður með það að Norðmenn hafi hagnast á innrásinni í Úkraínu og afleiðingum hennar. Í málþingi við landssamband ungliðahreyfinga í Póllandi á laugardaginn kvartaði hann yfir því að Norðmenn, sem flytja út verulegt magn af olíu og gasi, hefðu grætt á verðhækkun þessara auðlinda sem rekja mætti til stríðsins. Eins og kunnt er hefur innrásin haft mikil áhrif á verðlag vegna verslunar Rússa með olíu og jarðgas og möguleikans á því að verslun Evrópu við Rússa á þessum auðlindum verði hætt.

„Eitthvað er ekki í lagi,“ sagði Morawiecki við ungliðana. „Skrifið ungu vinum ykkar í Noregi. Þeir ættu að deila þessum gróða, þessum gríðarlega gróða.“

Morawiecki ávarpaði Norðmenn jafnframt beint og biðlaði til þeirra: „Kæru norsku vinir. Þetta er ekki eðlilegt, þetta er ekki réttlátt. Þið hagnist óbeint á stríðinu sem Pútín hóf. Auðvitað er stríðið í Úkraínu ekki Noregi að kenna, en þið eruð óbeint að græða á ófriðinum.“

„Þeir ættu strax að deila því sem þeir eiga,“ sagði Morawiecki. „Ég á ekki endilega við með Pólverjum, heldur með Úkraínumönnum, því það er á þeim sem þetta stríð hefur mest bitnað.“

Í viðtali við norska fréttamiðilinn VG sagði Berit Lindeman, ráðgjáfi hjá norsku Helsinkinefndinni um mannréttindasamvinnu í Evrópu, að Morawiecki hefði nokkuð til síns máls. Jafnframt hefðu Pólverjar siðferðislegt ráðrúm til að leggja orð í belg um þetta málefni sem nágrannaríki Úkraínu. „Noregur græðir oft á hernaðarátökum þar sem stríð og friður hafa áhrif á olíuverð. Það forkastanlega við þetta tilvik er að Noregur er að græða á átökunum á sama tíma og við höfum lækkað framlög til mannréttindamála og til Sameinuðu þjóðanna.“