Holland, Frakk­land, Pól­land og Ung­verja­land eru þau fjögur Evrópu­lönd sem nú eru flokkuð sem há­á­hættu­svæði og nýjar að­gerðir á landa­mærum lúta að. Þetta sagði Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra, eftir blaða­manna­fund ríkis­stjórnarinnar í Hörpu nú síð­degis.

Um tuttugu þúsund í­búar Ís­lands eru upp­runir frá Pól­landi og er um fjöl­mennasta inn­flytj­enda­hóp landsins að ræða. Líkt og fram hefur komið boðaði stjórnin hertar að­gerðir á landa­mærum nú síð­degis.

Lagt er til að skyldu­dvöl verði í sótt­kvíar­húsi fyrir alla sem koma frá há­á­hættu­svæðum, með yfir 1000 smit á hverja 100 þúsund íbúa. Þá fær dóms­mála­ráð­herra heimild til að banna ó­nauð­syn­leg ferða­lög til og frá þeim löndum þar sem smit eru með smit­stuðul yfir 1000.

Framan­greind falla þó ekki í þennan hóp miðað við nýjustu tölur Sótt­varna­stofnun Evrópu. Smit­stuðull á hverja 100 þúsund íbúa í Pól­landi er þegar þetta er skrifað 839,56, í Frakk­landi er hann 762,16, í Ung­verja­landi er hann 861,01 og í Hollandi er hann 563,29. Þá er Sví­þjóð einnig með háan stuðul á evrópskan mæli­kvarða með 770,67 smit á hverja 100 þúsund íbúa.

Far­þegum sem koma frá löndum sem eru með smit­stuðul yfir 750 verður því gert skylt að dvelja í sótt­kvíar­húsi við komuna til landsins, nema þeim verði veitt undan­þága á grund­velli reglna sem boðaðar eru. Það á til dæmis við ef fyrir liggja trú­verðug á­form um dvöl í full­nægjandi hús­næði.

Svan­dís Svavars­dóttir, heil­brigðis­ráð­herra og Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir, dóms­mála­ráð­herra, sögðust báðar binda vonir við að þessar að­gerðir dugi til þess að ekki þurfi að herða að­gerðir frekar hér innan­lands þrátt fyrir fjölgun smita.

Ekkert minnis­blað um hertar að­gerðir innan­lands er í smíðum hjá sótt­varna­lækni að sögn Svan­dísar. Þau eigi þó reglu­legt og náið sam­ráð.

Ríkis­stjórnin gerir ráð fyrir að frum­vörp um þessar hertu að­gerðir verði lögð fram á Al­þingi í kvöld. Þau geti jafn­vel tekið gildi fyrir helgi.